Gleðilegt sumar..............hve glöð er vor æska!

Gleðlegt sumar og takk fyrir veturinn, bloggvinir mínir sem og allir aðrir. Hve glöð er vor æska á svona dögum. Nú spretta krakkarnir fram með hjólin sín, boltana sína, hjólabrettin og öll þau leikföng sem tilheyra vori og sumri. Nú er eins og landinn rísi upp og lifni við eins og gamall geðstirður risi sem hefur lúrt í vetur, leiður á veðrinu og myrkrinu. Við erum skrítin þjóð og öfgar í veðri, birtu og umhverfi móta okkur. Við erum öfgakenndir íslendingar.  En nú rétta allir úr sér og teiga birtuna sem varir langt fram á kvöldin. Nú fer að koma sá tími í hönd að ég tími varla að sofa. Ég er ein af þessum vökustrumpum á sumrin sem helst vildi liggja úti í móa og hlusta á náttúruna næturlangt. Ég gerði reyndar mikið af því í útlegum hér áður fyrr. Nú dundar maður í garðinum sínum og situr á sumrin langt fram á kvöld úti við og nýtur birtunnar, þessarar mögnuðu sumarbirtu og kvak fuglanna.  Við vorum nokkrar kunningjakonur að ræða um leiki okkar sem börn í samanburði við börn í dag. Við vorum margir, krakkarnir í neðri hluta Hlíðanna sem nutu góðs af Engihlíðarróló sem var og hét. Þar var paradís okkar.  Þarna vorum við í stórum hópum krakkar á öllum aldri að leik. Einn leikur var mikið stundaður en þá sérstaklega ef gott og stillt veður var. Í horni rólósins var stór, steyptur sandakassi sem hafði breiðar, sléttar, steyptar brúnir, allan hringinn. Við sátum oft við þenna kant ofan í sandkassanum. Við notuðum þessar brúnir sem teikniborð. Við settum þunnt lag af þurrum sandi og notuðum greinabút til að skrifa með í sandinn. Þarna sátum við mörg, kvöld eftir kvöld og vorum í nafnagátu, með tilheyrandi gálgateikningu ef við svöruðum ekki rétt. Þarna var keppt stundum á milli stráka og stelpna. Einnig vorum við þegar við vorum örlítið stærri, í hnífaparís. Þá var flott að eiga vasahníf til að tálga spítur og vera í hnífaparís. Ég átti einn smáan vasahníf með hvítu skafti. Þetta gengi ekki  upp í dag, held ég. Þá væri talað um að æskan væri vopnuð. Við hugsuðum aldrei um þessa hnífa sem vopn, heldur verkfæri. Það var líka gott að nota hann við að skera bút úr epli. Svo var það rólukeppnin. Í öðru horni rólósins, þar sem spennistöðin var við, var hár rólustaur úr járni fyrir tvær rólur. Vegna mikillar hæðar stauranna voru keðjur rólanna mun lengri en á öðrum rólum, enda var slegist um að komast í þær. Þá var keppt í að ná sem lengstri sveiflu og ná að sparka með tánum í reyniviðargreinarnar í bakgarðinum í Mjóuhlið sem sneri að rólónum.  Á aðalsvæðinu voru tveir rólustaurar, ekki eins langir og hinir en þar var keppt í rólustökki. Þá var rólað eins og maður þorði og stokkið úr rólunni. Síðan var merkt við og sá sem lengst stökk vann!  Við áttum fæst okkar reiðhjól, við áttum ekki hjólaskauta, eða neitt það sem krakkar hafa í dag en það var brjálað að gera hjá okkur kvöld eftir kvöld í leikjum. Það sem líka var svo skemmtilegt, þarna voru allir aldurshópar að leika sér saman í hópum. Svo saxaðist á hópinn á kvöldin eftir aldrinum. Yngstu börnin voru kölluð inn fyrst og svo koll af kolli. Þegar elstu voru eftir var gjarnan setið og skrafað þangað til að röðin kom að þeim. Stíft var haldið í útivistartímann á þessum árum. Kom ekki að sök og ekki mikil mótmæli. Já, hve glöð er vor æska!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já, það rifjast ýmislegt skemmtilegt upp á sumardaginn fyrsta. Gleðilegt sumar og takk fyrir alla skemmtunina hér í vetur.

Steingerður Steinarsdóttir, 24.4.2008 kl. 18:49

2 Smámynd: Sigríður Guðnadóttir

Gleðilegt sumar

Sigríður Guðnadóttir, 26.4.2008 kl. 00:33

3 Smámynd: Huld S. Ringsted

Gleðilegt sumar

Huld S. Ringsted, 26.4.2008 kl. 21:15

4 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Gleðilegt sumar kæra blogvina

Guðjón H Finnbogason, 26.4.2008 kl. 22:53

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gleðilegt sumar Sigurlaug mín, jamm hér áður og fyrr áttu allir ungir og gamlir menn vasahnífa, það var bara must, og margra stúlkur líka.  En nú er Snorrabúð stekkur og karlmenn ganga ekki um með vasahnífa lengur.  En takk fyrir þessa frábæru færslu, það er alltaf gaman að rifja upp það sem var.  Knús á þig inn í daginn mín kæra. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.4.2008 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband