Nú árið er liðið í .....hugleiðing

Kæru bloggvinir, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á árinu sem leið. Síðasta ár er það ár sem einkennst hefur af miklum sviptingum miklum toppum og hraðri niðursiglingu. Ég horfði á fréttaannála sjónvarpsins í gær, nýársdag og var einkennilegt að horfa á hvern stjórnmálamanninn af öðrum segja okkur hinum að allt væri í himnalagi, hér væru erlendir aðilar að vega að íslenska hagkerfinu og bókstaflega ljúga upp á það meðan hagfræðingar og aðrir sem hafa meira vit á peningamálum vöruðu við þeirri þróun sem átti sér stað. Var ríkisstjórnin í afneitun eða eru það tómir vitleysingar sem stýra þessu skeri? Ég bara spyr. Hvenær á að fara taka mark á þeim sem meira vita hafa á hlutunum? Hér telja sig allir vita allt miklu betur en "fúll á móti".  Við hunsum viðvaranir annarra og reynslu annarra. Þvílíkur hroki. Erum við alltaf svona miklu betri, klárari en allir aðrir? Það mætti halda það. Það er búið að sjóða á hinum almenna borgara vegna þeirrar stöðu sem komin er.  Það hefur ekki mælst vel fyrir sú mótmælaalda sem hefur verið undanfarna vikur og mánuði. Ég horfði á Kryddsíldina meðan á útsendingu stóð.  Hávær mótmælin skáru sig í gegnum talað mál í þættinum og síðan rofnaði útsendingin. Reynt var aftur að hefja útsendingu en það stóð í stuttan tíma. Það kom fram hjá Ingibjörgu Sólrúnu enn og aftur að hún efaðist að þessi hópur sýndi vilja þjóðarinnar.  Sama kom fram á mótmælafundi í Háskólabíói hér fyrr.  Við hjónin veltum því þá fyrir okkur hvernig skoðanakannanir sem taka yfir kannski 600-1000 manns geta verið þá marktækari en þetta? Hafa þær verið teknar hátíðlega en þegar enn fleiri sækja svona mótmælafund þá þýðir það eitthvað annað. Ég skil ekki svona fullyrðingar. Við erum ekki sú þjóð sem vön er að standa fyrir mótmælum og höfum frekar látið allt mögulegt yfir okkur ganga og bölvað í hljóði. Það er bara ný kynslóð að taka við sem lætur ekki vaða yfir sig og sýna og hrífur hina með sér upp úr doðanum. Erum við ekki eitt elsta lýðræðisríki í heiminum? Hvar er lýðræðið núna? Ég hef lesið í blöðum um handtöku og dóma á fólks sem hefur stolið kjötlæri út úr búð, af því það átti ekki fyrir því og það fékk dóma upp á 2-3 mánuði og fleiri dæmi eru um slíka dóma í okkar réttarkerfi. Nú er búið að stela af okkur milljörðum, skuldsetja okkur almenninginn áratugi fram í tímann vegna óráðsnýju annarra.  Hvernig dóma fá þeir? ENGA! Enn sem komið er hefur enginn gengist í ábyrgð fyrir þessar gjörðir og því síður verið dæmdir.  Fylleríinu er lokið. Partýið er búið  og tiltektin er lögð á hendur almennings.  Þetta gat ekki gengið. Hvernig getur ríflega 300.000 manna þjóðfélag haldið úti rekstri á verslun og þjónustu sem þjónað gæti milljónum manna án þess að eitthvað gæfi sig eða væri ekki að ganga. Hvaða fyrirtæki áttu að flytja í öll þessi atvinnuhúsnæði sem byggð voru? Hver átti að búa í öllum þessum íbúðum sem var verið að byggja? Það sá hver heilvita maður að þetta var ekki reikningsdæmi sem gekk upp. Samt var almenningi talið trú um að allt væri í himnalagi, þetta væri ímyndun og hreinlega gefið í skyn að við hefðum ekkert vit á þessu.  Ungu fólki var boðið lán til hægri og vinstri. Keyptu þetta eða hitt og taktu lán og ekkert mál, því nú meikarðu það eins og allir hinir!!! Hvað voru mörg ungmenni sem féllu í þessa gildru? Þau voru ansi mörg og harðfullorðið fólk líka.  Fjármálaráðgjafar voru duglegir að ráðleggja fólki hvað það ætti að gera við peningana sína og margur situr nú með pyngjuna tóma eftir slíkar ráðleggingar.  Hvar eru peningarnir? Fjölmargir vinir foreldra minna áttu ævisparnað í bönkum sem þeir hafa nú misst og sitja uppi með tóma reikninga. Hver bætir þeim tjónið? ENGINN!  Svo eru ráðamenn hissa á því að fólk sé reitt og þetta sé ekki rödd þjóðarinnar sem heyrist berja hús utan og mótmæla. Þeir eldri hafa ekki kjark eða krafta til að framkvæma en heyrt hef ég raddir þeirra og þeir eru stoltir af því að unga fólkið lætur í sér heyra. Sumir segja jú, að þeir hafi nú aðeins farið þarna yfir strikið en að raddir þeirra skuli heyrast er það sem skiptir mestu máli. Enn er sama afneitunin í gangi. Það hefur ekkert breyst og enn eigum við að taka við því.  Gerum við það? Ég á systir sem búið hefur í Bandaríkjunum í 30 ár og er hún iðulega spurð að því hvort ekki sé búið að handtaka þennan eða hinn og hvort þeir sem stóðu að þessu væru ekki búnir að fá dóm? Nei. Hér eru allir þeir sömu við stjórnvölinn og verða það áfram. Hvergi í heiminum myndi slíkt viðgangast.  Búið væri að víkja mönnum úr embættum eða þeir sagt af sér. EN EKKI HÉR Á LANDI!  Í eldri bloggfærslu sagði ég frá orðum móður minnar um að nú væri öld raunsæisins runnin upp.  Sósíalistinn beið skipbrot, kenningin um algera frjálshyggju beið skipbrot  og hvað gerist nú?  Fólk talar um að nú verði önnur gildi uppi sem koma til með að verða hin sönnu verð mæti. Fólkið sjálft. Manneskjan, fjölskyldan og heimilið.  Náttúran og afturhvarf til grasrótarinnar.  Ég tel það vera rétt. Hópar fólks hafa verið að reyna að ríghalda í þetta, koma á framfæri í gegnum árin og reynt að spyrna við fótum. Þetta fólk var talið gamaldags, afturhaldssinnar, grasaguddur og ekki í takt við nýja tíma.  Hvernig getur manneskjan þrifist þegar hún er komin svo langt frá uppruna sínum og eðli? Hún bíður skipbrot. Verðmætamatið hefur verið svo skakkt.  Samkeppnin um flottheitin og ytri gæði hefur verið ráðandi. Flottræfilshátturinn hefur verið hreint yfirgengilegur.  Ég skrapp fyrir þó nokkru síðan niður bæ með vinum og stóðum við fyrir utan veitingahús niður í miðbæ. Haldið þið að það hafi ekki verið um tvær raðir að ræða! Önnur  var fyrir pöpulinn og hinn VIP röð! Ha!  Í borg sem telur ca. 160 þúsund manns, í landi sem telur ríflega 300 þúsund manns!  Þetta fannst mér vera lífsgæðakapphlaupið í hnotskurn og hallærisleg tilraun til að raða fólki í flokka eftir efnum og ástæðum. Ég hef upplifað það eins og verið sé að lyfta upp ákveðnum hópi fólks í svona stílfærðan Hollywood klassa. Getur ekki verið hallærislegra. Rót þessa alls er hin mikla minnimáttarkennd sem einkennir þjóðina. Við ánetjumst öllu og setjum á stall það sem útlenskt er og hefjum það upp til metorða og höfum gert þetta lengi. Nú er lag að breyta því. Við eigum að einblína á okkar sérstöðu, hreina náttúru, hreinar afurðir og hefja aftur til vegs og virðingar íslenskan iðnað. Hvenær ætlum við að læra að meta það sem við höfum hér? Það kemur vonandi á nýju ári með nýjum tímum og breyttri hugsun. Megi nýja árið færa okkur öllum gæfu, gleði og gott gengi í hverju sem við tökum okkur fyrir hendur. Lifið heil.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Takk fyrir samfylgdina á árinu sem var að líða og gleðilegt og gæfuríkt þetta nýja ár. Takk fyrir skrifin hér að ofan. Þau eru góð. Kveðja Elma

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 2.1.2009 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband