Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Því að taka frá þeim góð gildi?

Á vísi.is er viðtal við Bolla Pétur Bollason prest í Seljakirkju vegna ákvörðunar fimm leikskóla í Seljahverfi um að afþakka heimsóknir presta. Sjá hér að neðan.

Fámennur hópur trúleysingja hindrar kirkjustarf í Seljahverfi

Jón Hákon Halldórsson skrifar:

Bolli Pétur Bollason, prestur í Seljakirkju, telur að það sé vegna athugasemda frá fámennum en háværum hópi fólks sem leikskólastjórnendur í Seljahverfi hafi tekið þá ákvörðun að gera hlé á samstarfi kirkjunnar við leikskólana. Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær var greint frá því að þrír af fimm leikskólum í hverfinu hefðu tekið fyrir heimsóknir presta í leikskólana.

Bolli Pétur Bollason, prestur í Seljakirkju.
Við höfum átt gott samstarf við stjórnendur leikskólanna og reyndar grunnskólanna líka," segir Bolli. Hann segir að þau rök sem hafi verið færð fyrir því að slíta samstarfi við skólana hafi verið þau að á Íslandi væri að skapast fjölþjóðlegt menningarsamfélag og sum börnin væru ekki kristinnar trúar. „Reyndar verð ég að taka fram að það er ekki fólk af erlendum uppruna sem er að gera athugasemdir. Það eru miklu frekar Íslendingar sem standa utan trúfélaga," segir Bolli til útskýringar.

Ég bjó sjálf í Seljahverfi í yfir 20 ár og starfaði í nokkur ár á einum leikskólanna sem um ræðir. Það var alltaf hátíð þegar farið var í kirkju og þegar unnið var með kirkjunni og margar góðar stundir sem börnin áttu með prestinum.  Að mínu mati og reynslu hefur kirkjan verið fasti punkturinn í hverfinu ásamt leikskólunum og grunnskólunum. Mikið og gott starf fer fram í Seljakirkju fyrir börn og unglinga og hefur verið gott samstarf á milli allra. Kirkjan er nú þannig staðsett að hún er í miðju hverfinu á grænu svæði. Í kirkjunni er alltaf einhver við og hefur hún verið oft athvarf barna sem hafa verið að leik við tjörnina þar hjá ef eitthvað hefur bjátað á.  Þau hafa fengið djússopa hjá prestunum, kexköku og plástur á sárin sín. Mér finnst þarna sé verið að taka af þeim að kynnast góðum gildum kirkjunnar.  Stærsti hluti barnanna eru skírð af kristnum söfnuði og því á að taka það af þeim að kynnast kirkjunni sinni? Þeir sem ekki vilja að sín börn kynnist kirkjunni eða því starfi er hægt að bjóða aðrar stundir á meðan. Þeir sem eru annarrar trúar ættu því að fá að kynnast einnig sinni trú.  Þarna finnst mér einum og langt gengið. Hafi einhvertímann verið þörf á því að kynnast góðum gildum, kærleika og að lífið snúist um annað og meira en peninga og að eignast allt, þá er það núna.

 

 


Sorgardagur

Því miður hefur enn einn fallið í valinn á þessum vegi. Guð verið með aðstandendum hins látna og bílstjóra flutningabílsins. Guð vaki yfir hverjum þeim sem þennan veg ekur.

Þetta gengur ekki lengur!!

Umferðarþunginn á Suðurlandsvegi er með þeim hætti að það stafar hætta af á hverjum degi.  Fjöldi stórra malarflutningabíla aka þarna daglega.  Á morgnana er ég að mæta á minni leið til vinnu jafnvel tugum bíla sem aka allir á 90-100 km hraða í hvaða færð sem er. Nú er einstaklega dimmt þarna og þó sérstaklega í kringum námurnar í Þrengslum.  Einnig eru miklar vindhviður sem skapast við Sandskeið og við Litlu Kaffistofuna sem eru verri oft en sjálfvirkur veðurmælir gefur upp á Hellisheiðinni sjálfri og í Þrengslum.  Ég held að þarna verði að koma átak allra til að stöðva þetta. Þetta eru varhugaverðir kaflar sem krefjast sérstakrar varúðar.  Þarna ætti til dæmis alls ekki að stunda framúrakstur en þarna eru því miður oft teknir hættulegir "sénsar" við aðstæður sem ekki leyfa slíkt.  Ég hvet alla sem þarna fara um að sýna fyllstu varúð og aðgæslu í akstri.
mbl.is Umferðarslys á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mánuður til jóla !

Jebb, í dag er 24. nóvember og sléttur mánuður í aðfangadag. Nú fer jólaljósum að fjölga og styttist í að jólalögin verða leikin í útvarpi. Það er alltaf stemmning þegar jólaljósin eru logandi um allt og slær mislitri birtunni í myrkrinu. Það væri ansi nöturlegur í myrkrinu þessi árstími ef ekki væru jólin.  Nú er um að gera að njóta tímans þegar aðventan fer í hönd en 1. sunnudagur í aðventu er einmitt eftir viku eða 2. desember.  Framboð af stórkostlegum tónlistarviðburðum er í algjöru hámarki á þessum tíma og er oft erfitt að velja úr.  Reynið þið samt að láta ekki streytuna ná tökum á ykkur i kringum jólin. Þau koma hvernig sem fer.  Njótið samverustundanna, ljósanna, tónlistarinnar en drukknið ekki í verslanamiðstöðvunum.  Lifið heil.

Konur eru ofurhetja nútímans!

Þetta kemur í raun ekki á óvart. Karlar hafa jú verið að taka aðeins til hendinni í gegnum tíðina en eigi að síður er það konan sem ber þyngstan hluta af heimilishaldinu ennþá. Í allri umræðu um vinnu kvenna, stöðu á vinnumarkaði, fjölda vinnustunda á viku gleymist oft þessi fjölskylduábyrð og heimilishald. Vinnu konunnar er sjaldnast lokið eftir hefðbundna launavinnu. Þá er eftir að kaupa í matinn, útrétta, sækja börn af leikskóla eða annað, heimsækja aldraða foreldra og svo taka við heimilisstörfin. Þau taka drjúgan tíma.  Móðir mín gantaðist oft með það að það taka ekki allir eftir því hvað húsmóðirirn afrekar dags daglega í heimilishaldi en það taka allir strax eftir því sem hún gerir ekki og jafnvel ræða það sín á milli! Ætli það sé eitthvað til í þessu enn. Þegar aukin þörf varð á því að konur færu út á vinnumarkaðinn bættist aðeins meiri vinna á þeim. Það hefur ekki skiptst ennþá jafnt á milli karla og kvenna heimilisstörfin nema að hluta og ekki nærri hjá öllum fjölskyldum. Betur má ef duga skal. Þetta er lúmskt álag. Síðan eru félagsstörfin eftir, áhugamálin, líkamsræktin, vinkonur og ættingjar.  Ég segi það og stend við það að konur eru ofurhetjur nútímans!
mbl.is Konur vinna enn flest húsverkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkaleyfi á byggingaframkvæmdir í Þorlákshöfn?

Á vef Sveitarfélagsins Ölfus er frétt um staðfestingu á flutningi Einingaverksmiðjunnar til Þorlákshafnar 2008 með þar til gerðum samningi milli aðila. Það er gott og blessað og gott að fá fjölbreytni í atvinnulífið í bænum en............. í þessum samningi er gengið frá kaup-og byggingarétti á 40 lóðum til bygginga á íbúðarhúsnæði á árunum 2008 til 2011. Í mínum huga er verið að gefa þessu fyrirtæki nánast einkaleyfi á byggingu íbúðarhúsnæðis þarna næstu árin. Ég spyr á að drepa þá verktaka sem fyrir eru í Ölfusi og nágrenni sem hafa byggt þarna á síðustu árum? Mér finnst þetta afskaplega sérkennilegur samningur. Sjá frétt á www.olfus.is  .  Lifið heil.

Gætið ykkar!

Eftirfarandi frétt er á visi.is en í morgun hafði ég fengið í tölvupósti upplýsingar um þetta og viðvörun sem send hefur verið milli manna á netinu. Þetta er skelfileg tilhugsun og hvet ég alla sem þurfa að nota almenningssalerni að hafa með sér "tissue" pakka í vasanum eða í veski. Hér þarf að herða tökin í  eftirliti á salernum. Víðast hvar er komin blá lýsing en þó ekki á öllum stöðum.  

Starfsmenn sem vinna við þrif í verslunarmiðstöðvum hafa orðið varir við að fíkniefnaneytendur hafi stungið nálum upp í klósettrúllur á almenningssalernum. Þannig hafi þeir hreinsað þær og skilið eftir örlitla blóðbletti í ónotuðum pappírnum.

Breyta þarf víðast hvar um tegund salernisrúlla. Á mörgum salernum eru komnir skammtarar sem gefa aðeins ákveðna stærð af bréfi í gegnum lítið gat svo ógerningur er að stinga í gegnum  heila rúllu. Þetta þarf að laga til að tryggja öryggi almennings. Lifið heil.


Kuldapollar.......

Já, það voru nokkrir kuldapollar í morgun þegar ég var á leið til vinnu. Hitasveiflur á leiðinni eru ótrúlegar. Í mínum heimabæ Þorlákshöfn var hitastigið -10,6 °C um kl. 8:30. Þegar komið var í Þrengslin var hitastigið komið upp í -7,0 °C. Áfram hækkaði hitinn og var kominn upp í -6,0°C við Litlu Kaffistofuna.  Þegar komið var að Bláfjallaafleggjaranum féll hitastigið hratt og þegar komið var rétt ofan við Lögbergsbrekku mældist hitinn -11,5°C.  Hægt og rólega hækkaði hitinn þegar nær dró Rauðavatni. Eigi að síður mældist hitinn þar -7,8°C og við brúna yfir Elliðaárnar var hitinn kominn í -4,8°C. Því var dálítið ankannalegt að hlusta á þulinn í útvarpinu segja að hitastig í Reykjavík  í morgun mældis -2°C !  Það er greinilega eingöngu hægt að taka mark á þeim tölum ef þú ert stödd/staddur við Veðurstofu Íslands. Lifið heil.

Norðurljósin dansa dátt..........

Já þau dönsuðu svo sannarlega dátt rétt áðan. Ég var að koma inn af göngu með hana Tinnu mína og gengum við hérna stíginn upp fyrir bæinn. Það var yndislegt. Tunglið var að brjótast fram úr skýjunum og tunglsljósið skein í myrkrinu. Dans norðuljósanna var stórkostlegur. Skiptust litirnir í þeim frá neongrænu yfir í hvítt og bleikt. Það er langt síðan að þau hafi sést. Veðrið hefur séð til þess. Það var aðeins kul í lofti en ótrúlega stillt og gott veður. Mín var ánægð með tilveruna og fór eftir öllum þeim reglum sem henni eru settar í þessum ferðum. Ég var rosalega stolt af henni. Ég meira að segja sleppti henni og gekk hún alveg við hæl megnið af leiðinni til baka eða þar til ég sett á hana tauminn aftur. Eftir amstur vinnudagsins eru þetta dýrðarstundir.  Hugurinn hvílist og endurnærist. Vonandi fáum áfram svona yndislegt veður. Góða nótt og lifið heil.


Hrikalegt myrkur - lýsing í umhverfismati!

Undanfarnar vikur og mánuði hefur veðráttan verið nánast alfarið rigningarsuddi. Í slíkum aðstæðum verður myrkrið og þokan algjör á veginum í Þrengslunum. Vilji menn kynnast því að aka í þokusudda og rigningu og í algjöru myrki, þá ættu þeir hinir sömu að aka Þrengslin. Að auki er þessi vegur mjög slitinn, engar vegaxlir eða öryggissvæði. GSM samband er mjög tregt og ekkert á köflum.  Orkuveitan í samvinnu við Ölfus  ætlaði að lýsa Þrengslin og átti þeirri framkvæmd að vera lokið í desember á síðasta ári en ekkert bólar að lýsingu. Einhver Garðbæingur krafðist þess að lýsingin færi í umhverfismat! Ég spyr - er ekki hér um hreint öryggisatriði að ræða? Þarna fer mikil umferð bíla alla daga við varhugaverðar aðstæður.  Útafkeyrslur eru ekki óalgengar í hálku og snjó vegna þrengsla á veginum og myrkurs.  Því þarf lýsing sem þessi, sem ég tel vera hreint öryggisatriði að fara í umhverfismat?  Ég minnist þess ekki að lýsingin á Reykjanesbrautinni hafi þurft að fara í umhverfimat í sínum tíma. Hennar var krafist vegna öryggisins. Hver er munurinn? Vill einhver vera svo vænn að svara því?

Næsta síða »

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband