Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Vandlega falið en algengt.

Það er mun algengar en fólk heldur að karlmenn séu beyttir ofbeldi af hálfu eiginkvenna og sambýlsikvenna. Oft er um að ræða andlegt ofbeldi sem brýtur manninn niður hægt og rólega. Sjaldan leita karlmenn sér aðstoðar vegna slíks ofbeldis enda finnst þeim það oft mjög niðurlægjandi. Í forræðisdeilum eru börn oft notuð sem vopn á föðurinn. Þeir eru settir undir smásjá, tortryggnir á allan handa máta og lítið gert úr þeirra atgervi. Einnig hafa konur notað þá aðferð að svelta sambýlismann kynferðislega og notað það sem vopn. Ofbeldi á körlum tel ég vera vandlega falið og fara þeir ekki hátt með sína vanlíðan og niðurbrot. Ég held að hér sé full þörf á miðstöð fyrir karla sem lenda í ofbeldi og einnig fyrir þá sem hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi sem börn og lent í sifjaspelli. Karlmenn leita síður til Stígamóta en konur. Stígamót vinna stórkostlegt starf og lyft Grettistaki í þessum málum en karlar eru enn feimnir við að leita þangað, þar sem Stígamót hafa fyrst og fremst verið nánast samtök kvenna. Ég hvet alla karlmenn sem telja sig vera beitta ofbeldi að leita sér aðstoðar og styrks til að vinna sig út úr því.
mbl.is Á sjúkrahús eftir heimiliserjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan koma peningarnir?

Ég varð kjaftstopp í gær þegar ég sá fréttirnar frá blaðamannafundi með Ástþóri Magnússyni í Háskólabíó þar sem hann reiddi fram í seðlum 40 milljónir króna með boði um að greiða forsetakosningarnar í vor. Þvílíkt siðleysi. Kallast þetta ekki mútur? Ég spyr líka: "Hvaðan koma peningarnir".  Úr sjóði Friðar 2000 eða hvað?  Það er vond lykt af þessu máli.

Græðgin er að drepa landann!!!

Græðgin er orðin svo yfirgengileg. Hér keppast verktakar að kaupa upp lóðir til að græða sem mest á hverjum fermetra. Fleira verslanir og meira verslunarrými er ekki það sem við þurfum á að halda. Við erum með verslanir og þjónustu sem þjónað geta miljónum manna. Ef eitthvað þarf að gera þá er að fækka þeim en byggja upp miðbæinn í eins upprunalegt horf og hægt er og fjölga sérverslunum eins og þeim verslunum sem eru á Skólavörðustígnum, sem er lifandi og skemmtilega gata.  Í Silfri Egils var viðtal við Sigmar, skiplagsfræðing sem var með kynningu á því sem verið er að gera í uppbyggingu á nokkrum borgum í Evrópu en þar er keppst við að koma þeim í sem næst því upprunalega horfi sem þær voru í. Sýnt þykir að til að halda borgum lifandi þarf þetta að gerast. Sigmar sýndi einnig dæmi um nokkur skipulagsslys sem voru nánast það sama og verið er að gera hér.  Hann setti upp götumynd úr Nyhavn í Kaupmannahöfn þar sem hann hafði tekið út gamalt og sett í staðinn álíkan hrylling eins víða er búið að byggja í miðborg Reykjavíkur. Útkoman var skelfileg. Hvenær ætlum við að læra að meta hlutina og horfa til lengri tíma? Hvenær ætlum við að láta af endalausri græðgi.  Það verður ekki aftur tekið sem eyðilagt verður.  Lifi miðborgin með sína sögu og menningu!!!!
mbl.is Tugir verslana gætu horfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki að undra ef svona er farið að ............

Þetta kemur mér ekki á óvart. Þegar verið er að prófa hvort sjúklingur þoli lyf eða hvort virki er oft verið að ávísa stórum skömmtum af lyfjum. Móðir mín er afar slæm af gigt og hefur verið í mörg ár. Hún hefur hins vegar mjög lítið þol gagnvart lyfjum og oft fengið ofnæmisviðbrögð við þeim lyfjum sem verið er að athuga hvort gagnist henni. Í öll þau skipti sem hún hefur fengið ný lyf hefur verið ávísað á hana 100  töflum eða svo, stundum heill kassi með fjölda lyfjaspjalda. Eftir inntöku á lyfinu í 1 viku eða svo hefur iðulega komið í ljós að lyfið þolir hún ekki. Hún hefur oft kvartað yfir því hvers vegna í ósköpunum sé verið að ávísa svo miklu magni, vitandi hversu viðkvæm hún er fyrir lyfjum. Hún hefur oft haf orð á því hvort ekki væri hægt að láta hana hafa nokkurra daga skammt eða 1 spjald því restinni hefur hún þurft að láta apótekin ítrekað farga fyrir sig restinni. Þetta er þvíilík sóun og óþarfa kostnaður. Það hlýtur að vera hægt að draga úr þessu með því að ávísa ekki svona stórum skömmtum í tilvikum eins og hjá henni. Ég er ansi hrædd um að miklu fleiri standi í sömu sporum.
mbl.is 60 tonn af lyfjum á haugana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Stígamótakonur - lengi lifi grasrótin!

Stígamót eru sú grasrótarhreyfing sem hefur kröftuglega barist gegn hvers kyns ofbeldi gagnvart konum og gegn heimilisofbeldi og vakið athygli á stöðu kvenna og barna sem búa við slíkar aðstæður. Stígamót eru vel að þessum verðlaunum komin og orðstír þess fer víða.  Það eru ófáar konur og börn sem hafa notið stuðnings og hjálpar þess.  Til hamingju með viðurkenninguna!
mbl.is Stígamót fá alþjóðlega viðurkenningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á flandri um landið og villtist!

Í vikunni sem leið var ég stödd á Egilsstöðum, þar sem ég átti að kenna á námskeiði að  Kirkjumiðstöðinni inni að Eiðum. Ekki hef ég áður verið þar á ferð um hávetur. Þennan fimmtudagsmorgunn átti ég að vera mætt til kennslu kl. 9:00. Ég hugðist aka sem leið lá í gegnum bæinn áleiðis að afleggjaranum til Seyðisfjarðar og þaðan inn að  Eiðum. Úti var dimmt, ísþoka um allt og snjómugga. Ég var á bílaleigubíl sem ég þekkti ekki og ók því mjög varlega í fljúgandi hálkunni. Nú var ég komin ofan byggðar en lenti í lokaðri götu og fann ekki rétta leið. Náði ég að stöðva þar einn ágætis bílstjóra á vöruflutningabíl og bað hann að segja mér til vegar inn að Eiðum. Jú, jú, ekki málið. Farðu að næstu gatnamótum til hægri og svo áfram, þá kemurðu að stórum "T" gatnamótum og þá ferðu til vinstri. Ég gegni því og ek af stað. Jú, þarna voru gatnamótin hin fyrstu, svo komu stóru "T" gatnamótin og ég beygði til vinstri. Ég ók sem leið lá í ísþokunni og myrkrinu. Áfram ók ég og enn jókst snjókoma og færðin þyngdist. Leiðin lá aðeins upp í móti. Ekki leist mér orðið á blikuna. Ég var búin að aka (reyndar mjög varlega) í um það bil 20 mínútur þegar ég sé glitta í vegamót og á skilti stóð "Mjóifjörður". Neeeii, þetta gat nú ekki verið. Ég hélt aðeins áfram, kom að björgunarskýli. Nei nú er ég á kolrangri leið. Ég ók áfram til að finna hentugan stað til að snúa við. Það tók dálítinn tíma, þar sem snjór var á vegi, hálka, ísþoka og snjómugga. Betra að vera á öruggum stað. Ég sneri við og ók til baka. Þegar ég kom að fyrrnefndum "T" gatnamótum var skilti sem benti í áttina sem ég var að koma úr, þar stóð "Reyðafjörður!!!! Ég hafði verið komin langleiðina til Reyðarfjarðar. -Til hægri var skilti og á því stóð "Seyðisfjörður",þaðan hafði ég komið og blessaði bílstjórinn eitthvað misskilið þetta. Ég branaði því í hasti áfram veginn og komst loksins klakklaust að Kirkjumiðstöðinni að Eiðum, en var næstum 1/2 klst. of sein. Þetta var samt eitt skemmtilegasta námskeið sem ég hef kennt á, frábær hópur og Héraðsbúar höfðingjar heim að sækja. Kristjana í eldhúsinu fór á kostum í matargerð fyrir mannskapinn og Sr. Jóhanna tók vel á móti okkur. Kærar kveðjur austur!


Stóru hryllingsbúðirnar

Ég verð seint talin vera búðarápari því það er eitt af því leiðinlegasta sem ég geri er að fara í búðir, einkum stórar búðir, sem ég kalla "hryllingsbúðir"Alien.  Hvað á ég við með því?  Jú, þessi gímöld sem þú neyðist til að rápa fleiri tugi eða hundruð metra til að ná í einn hlut og þær keyra þreytt starsfólk, alltof fátt til að kreista krónurnar úr landanum, alla daga vikunnar. Fá hann til að kaupa meira. Ein af þessum verslunum er IKEA. Ég hef bara enga löngun til að fara í þá verslun eftir að hún flutti og stækkaði. Nýja Hagkaupsverslunin í Holtagörðum er ein þessara verslana. Kýs frekar að fara í Skeifuna eða í versta falli Kringluna. Svo er það Toys"R"Us. Landinn tapaði sér þegar hún opnaði. Heilagt leikfangastríð hófst milli verslana fyrir jólin. Ég hafði ekki lyst á að fara þangað,  þar sem þessi verslanakeðja hefur haft það orð á sér að stunda það að brjóta á launþegum víða um lönd þar sem hún starfar. Setur leiðinlegan stimpil á hana og svo stendur Leikbær alltaf fyrir sínuLoL. Maður fer að sakna sárlega kaupmannsins á horninu. Lifið heil.


Jólin sprengd upp......

Jepp, nú er þessum jólum lokið og er verið að sprengja þau "upp" ef svo má að orði komast. Jólahátíðin er formlega leyst upp með tertusprengingum og rakettulátum hundinum mínum til mikillar armæðu. Hún liggur skjálfandi við fætur mér og veit ekki sitt rjúkandi ráð (var reyndar að enda við að gefa henni róandi töflu sem ég fékk hjá dýralækninum). Þetta er versti árstíminn í hennar lífi, áramótin og þrettándinn. Nú eru menn að taka út það sem ekki var hægt að skjóta upp á  gamlárskvöld sökum veðurs. Hún hefur til að mynda ekki þorað út að pissa síðan kl. 11:00 í morgun og ekki séns að fá hana út að pissa eins og er, en sprengt hefur verið með reglulegu millibili síðan þá.  Nú hefst niðurpökkun á jólaskrautinu og það bíður næsta árs. Einkennilegt hvað sá tími sem jólin standa yfir er afstæður. Þetta er 1 vika eða svo en er eigi að síður svo langur tími. Það er óskaplega gaman að skreyta en í seinni tíð finnst mér ég rétt vera nýbúin að setja það upp þegar tími er kominn til að pakka því niður aftur, hefur þetta ekki eitthvað með aldurinn að gera?. Jólin er yndislegur tími og alltof fljót að líða.  Nú er önnin að hefjast hjá okkur og fer kennslan á fullt í næstu viku. Hef setið hér við námsgagnagerð og tók mér smápásu til að skutla inn nýrri færslu.  Stór dagur verður hjá frumburðinum á laugardaginn næstkomandi en þá verður hann þrítugur! Vá, hvað tíminn flýgurWink .  Það verður auðvitað haldið upp á afmælið með pompi og prakt Wizard  . Jæja, læt þetta duga í bili. Best að halda áfram. Lifið heil.

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 5635

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband