Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hvað varð um þá ákvörðun að halda uppi atvinnu eins og hægt er?

Þessi frétt á vefsíðu Eflingar-stéttarfélags nístir þegar mikill samdráttur er á, fyrst og fremst almennum markaði og atvinnuleysi eykst stöðugt að ríkissfyrirtæki eins og Landspítalinn hyggst setja allar ræstingar á sjúkrahúsinu í Fossvogi í útboð á EES svæðinu! Þarna kemur fjöldi manns til að missa vinnuna.

28. janúar 2009

LSH heldur fast við uppsagnir í ræstingu

Óskiljanleg harka

-segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar

Efling-stéttarfélag hefur mótmælt harðlega þeirri ákvörðun Landspítalans í byrjun mánaðarins að segja upp öllum 30 starfsmönnum í ræstingu á Borgarspítalanum í Fossvogi.  Þessi ákvörðun var tilkynnt á fundi með starfsmönnum þar sem jafnframt var tilkynnt að bjóða ætti þessi störf út á Evrópska efnahagssvæðinu. Sigurður Bessason, formaður Eflingar segir það óskiljanlegt hve stefna LSH er ósveigjanleg, sérstaklega með tilliti til aðstæðna á vinnumarkaðnum þar sem verið er með þessu að senda hóp starfsmanna beint á atvinnuleysisskrá. Hann segir sjálfgefið að taka málið upp við nýjan heilbrigðisráðherra.
Meira

Þarna fyrir það fyrsta er ráðist á garðann þar sem hann er lægstur. Þarna eru starfsmenn með langan starfsaldur og hafa gengiði í gegnum súrt og sætt í þeim miklu breytingum sem þarna hafa átt sér stað síðust 10 árin og rúmlega það. Þarna er enn og aftur verið að segja upp ræstingarfólki í sparnaðarskyni! Þarna er einnig verið að bjóða heim fyrirtækjum sem hika ekki við að undirbjóða, borga laun undir lágmarki og þar með útiloka íslensk fyrirtæki sem eru í eðlilegri samkeppni um þessi verk hér á markaði. Það væri nær að taka til annarsstaðar en í þessu. 


Hvaðan kemur fréttin á visi.is?

Innlent 26. jan. 2009 09:55

Samkomulag um minnihlutastjórn

Náðst hefur samkomulag um að mynda minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem Framsóknarflokkurinn og Frjálslyn...

Þessi frétt er send í loftið sem staðreynd. Ekkert virðist vera til í henni og ekki er heimildamanna getið. Þó búið sé að ræða við Ingibjörgu Sólrúnu eftir þingflokksfundinn og Steingrím J. hefur ekkert í komið fram í þessa áttina. Hver skrifaði fréttina og hvaðan koma þessar heimildir. Fréttin hefur heldur ekki verið tekin út af visi.is.  


Afsögn Björgvins kemur alltof seint.

Þessi afsögn Björgvins hefði átt að koma miklu fyrr ásamt afsögnum fleiri. Þetta er bara hrein og klár kosningabarátta. Þetta er fyrsta skrefið í þeirri baráttu. Mikill glundroði ríkir á stjórnaheimilinu og er ég viss um það að ríkisstjórnin verði sprungin áður en að miðnætti kemur á þessum sólarhring. Í síðasta lagi þeim næsta. Það er alveg deginum ljósara og  orðið löngu ljóst að þessi ríkisstjórn er ekki starfhæf. Það verður að  koma á einhverskonar þjóðstjórn fram að kosningum sem þurfa að fara fram í apríl eða eigi síðar en þá. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu sólarhringum. Þetta hefði bara þurft að gerast miklu fyrr. Nú er Björgvin farinn frá og nú þarf að koma stjórnendum Seðlabankans frá, þá sérstaklega Davíð Oddssyni. Brandari dagsins er fréttamynd sem tekin var í nótt af síðustu  mótmælendum sem tóku sér mótmælastöðu fyrir utan hótel, þar sem starfsmenn Seðlabankans héldu árshátíð sína og síðustu mótmælendurnir aðstoðuðu einn starfsmann vel hífaðan að komast til síns heima eftir gleðskapinn! Þessi fréttamynd birtist í ríkisstjónvarpinu í hádeginu. Betra gerist þetta nú ekki! Svona gerist bara á Íslandi.

Afmælisdagur!

Þessi fjallmyndarlegi maður, Páll Ingi á afmæli í dag. Hann er 31 árs í dag og er elsti sonur  minn.  Það var beðið lengi eftir honum en hann átti að fæðast mánuði áður eða um miðjan desember árinu á undan (þ.e. hinu megin við áramótin). En hann kom loks og brosti meira að segja þegar hann fæddist og horfði mikið í kringum sig.  Í dag er hann ljósmyndari, tónlistarmaður og alt mulig mand. Til hamingju með daginn karlinn minn. palli.jpg

 


Forkastanleg vinnubrögð - hefur gerst áður

Mér finnst það alveg með ólíkindum að enn skuli ekki haft samráð við það fagfólk sem heldur utan um þessa starfsemi þegar svona breytingar eru í farvatninu. Þetta minnir  mig óneytanlega á þá framkomu sem yfirlæknum sem og öllu örðu starfsfólki Landspítalans var sýnt þegar ákvörðun var tekin um að loka Vífilstaðaspítala árið 2002. Ég vann þá hjá Eflingu-stéttarfélagi og vorum við kallaðar snögglega á fund við Þórunn Sveinbjörnsdóttir varaformaður, vegna stöðunnar þar og til að standa vörð um félagsmenn okkar. Við héldum þegar við lögðum af stað að við værum að fara að funda með okkar félagsmönnum og yfirmönnum þeirra. Þegar til kom var salurinn á 1. hæð smekkfullur af starfsmönnum spítalans og með forstjóra LSH í fararbroddi. Mikil reiði var í yfirlæknum sem skiljanlegt var, þar sem þeir fréttu það í gegnum fjölmiðla að loka ætti spítalanum. Þarna átti að flytja til starfsemi til sparnaðar og til að gera starfsemina markvissari. Einkum geðsviðið.  Þetta var að mig minnir í lok árs 2001 eða í byrjun árs 2002. Mikil framför hafði átt sér stað þegar deild 26 var flutt úr Hátúninu, þar sem fólk bjó í í tví -og þríbýli var flutt inn á Vífilsstaði þar sem það fékk loks að búa í einbýli. Nú átti að flytja íbúa deildar 26 inn á Kleppspítala og sögðu starfsmenn deildar að þarna væri um algera afturför að ræða þar sem íbúar myndu aftur lenda í tvíbýli. Mikil og heit umræða fór af stað um faglega stöðu einstakra deilda og voru menn ekki á eitt sáttir um ágæti þessara breytinga. Síðan hefur Arnarholti verið lokað og fleiri einingum. Þessar aðgerðir og lokun Selsins á Akureyri minna mig margt um þennan tíma og er ég sannfærð um að ekki hafi komið allt það ágæti og sparnaður út úr þessum breytingum sem til stóð. Þeir svo sem lenda alltaf undir eru varnarlausir sjúklingar og aldraðir. St. Jósefspítalinn í Hafnarfirði er sá besti og manneskjulegasti spítali sem hægt er að finna. Þetta er ekki ný umræða. Áður hefur komið til tals að loka þessari rekstrareiningu. Móðir mín vann þarna í mörg ár og rifjaði hún upp þá tillögu sem kom þá hjá Hafnarfjarðarbæ, að sá möguleiki gæti verið fyrir hendi ef kæmi til lokunar spítalans, að bærinn tæki við spítalanum og rekstri hans. Skyldi sú umræða enn vera við lýði? Þetta er forkastanleg vinnubrögð gangvart öllum þeim sem starfa og standa að þeirri starfsemi sem þarna fer fram.  Það er oftar en ekki verið að finna upp hjólið hjá hinu opinbera til að redda málum en endar alltaf með því að verða ferkantað! Lifið heil!
mbl.is Eins og maður hafi verið skotinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessir andf#&%"!%&/ flugeldar!

Mikið skelfing hafa þessir flugeldar sem skotið hefur verið upp af ungmennum daga, kvöld og nætur undanfarið eða frá því flugeldasala hófst verið hvimleiðir. Sjálf hef ég gaman af því að skjóta flugeldum kl. 00:00 á gamlárskvöld. En hundurinn minn hún Tinna er búin að þjást núna í bráðum tvær vikur. Hún er svo skelfilega hrædd við flugelda og allar sprengingar. Þegar fyrstu flugeldarnir eru sprengdir, hættir hún að þora að fara út að gera þarfir sínar og þarf miklar kúnstir við það að fá hana til þess. Hún heldur í sér í allt að 12-14 tíma sem er mjög slæmt! Ég fór með hana út eldsnemma í morgun og gekk það ágætlega. En ekki fékkst hún til að fara í hádeginu né síðdegis og tókst loks rétt fyrir kl. 22:00 að fá hana út, þar sem enn var verið að sprengja. Augnablikshlé varð á sprengingum og gekk þetta í fyrstu nokkuð vel. Á leið heim hófust sprengingar og hún varð viti sínu fjær og var vart við hana ráðið í taumnum.  Sem dæmi um viðbrögð hennar hér heima, þá við sprengingar urra hún og geltir og skríður bak við gardínur. Sem ég var að elda matinn í kvöld, standandi við eldavélina með svuntu framan á mér kemur einn hvellurinn og mín vinkona flýtti sér fram fyrir mig, tróð sér þar og stakk hausnum undir svuntuna og hreyfði sig ekki þaðan. Það verður að segja það í orðsins fyllstu merkingu að hún "flæktist fyrir mér" við eldamennskuna því hún vildi helst sitja ofan á fótum mínu eða undir svuntunni. Vona ég að þessari and#$%&$*$# Angry skotgleði fari að ljúka svo blessað dýrið geti farið að anda rólega. Lifið heil!

Fáeinar myndir og fleira.

Jæja, hérna koma nokkrar myndir sem ég tók um helgina. Ég reyndi að setja inn tvö  myndbönd teknar úr gönguferð við sjóinn við Hafið bláa en það gekk ekki upp. Verð að reyna síðar. jol2008_012.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Palli að slappa af eftir pizzuátið. 

jol2008_016.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Tinna að reyna að fá Gísla í smá fighting!

jol2008_030.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég er með doldið flottan feld þessa dagana!

Ég stefni að því að taka fleiri myndir og setja inn. Tölvan hefur verið að stríða okkur og lokar hún fyrir windows og explorerinn. Það þarf víst að setja öll forrtitin upp á nýtt og það tekur tíma. Vonandi gengur þetta betur næst. 

 


Marley og ég......frábær bók!

Ég var svo heppin að fá í jólagjöf bókina, Marley og ég  eftir  John Grogan, Bandarískan blaðamann. Þessi skemmtilega og einlæga frásögn manns og hunds snertir mann á svo margan hátt. Sérstaklega mig sem hundaeiganda. Þessi bók fjallar um það þegar John Grogan og eiginkona hans fá sér hvolp, sem er af Labrador kyni, svokölluðum Bandarískum-Labrador. Höfundur lýsir honum sem vonlausum hundi sem ekki er hægt að ala upp með góðu móti, er með athyglisbrest á háu stigi, ómælda orku, skemmdafýsn og sá eini sem hann vissi um sem rekinn var af hlýðninámskeiði! Ég er búin að hlægja mig máttlausa í einrúmi yfir lestur þessarar bókar. Fyrir það fyrsta eru frásagnirnar af afrekum þessa skemmtilega og fjöruga hunds, Marleys með eindæmum lifandi og skemmtilegar og að auki er margt líkt með ýmsu sem hann afrekar og hundinum mínum, henni Tinnu. Hún er nú að verða þriggja ára í vor og er enn algjör hvolpur með athyglissýki á háu stigi. Reyndar hefur hún ekki skemmt eins margt og Marley en stríðnin og uppátækin eru mjög svipuð um leið og orkan og gleðin skín úr þessum brúnu fallegu augum sem blikka mann upp úr skónum og maður fær engan veginn staðist. Ég mæli eindregið með þessari bók, þá sérstakleg þeir sem eiga hund lesi hana. Ég sá allavega hundinn minn í nýju ljósi. Reyndar er Tinna blanda af Labrador og Border collie en margt líkt með þeim eigi að síður. Þessi bók er í senn, skemmtileg, fyndin og einlæg.

Nú árið er liðið í .....hugleiðing

Kæru bloggvinir, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á árinu sem leið. Síðasta ár er það ár sem einkennst hefur af miklum sviptingum miklum toppum og hraðri niðursiglingu. Ég horfði á fréttaannála sjónvarpsins í gær, nýársdag og var einkennilegt að horfa á hvern stjórnmálamanninn af öðrum segja okkur hinum að allt væri í himnalagi, hér væru erlendir aðilar að vega að íslenska hagkerfinu og bókstaflega ljúga upp á það meðan hagfræðingar og aðrir sem hafa meira vit á peningamálum vöruðu við þeirri þróun sem átti sér stað. Var ríkisstjórnin í afneitun eða eru það tómir vitleysingar sem stýra þessu skeri? Ég bara spyr. Hvenær á að fara taka mark á þeim sem meira vita hafa á hlutunum? Hér telja sig allir vita allt miklu betur en "fúll á móti".  Við hunsum viðvaranir annarra og reynslu annarra. Þvílíkur hroki. Erum við alltaf svona miklu betri, klárari en allir aðrir? Það mætti halda það. Það er búið að sjóða á hinum almenna borgara vegna þeirrar stöðu sem komin er.  Það hefur ekki mælst vel fyrir sú mótmælaalda sem hefur verið undanfarna vikur og mánuði. Ég horfði á Kryddsíldina meðan á útsendingu stóð.  Hávær mótmælin skáru sig í gegnum talað mál í þættinum og síðan rofnaði útsendingin. Reynt var aftur að hefja útsendingu en það stóð í stuttan tíma. Það kom fram hjá Ingibjörgu Sólrúnu enn og aftur að hún efaðist að þessi hópur sýndi vilja þjóðarinnar.  Sama kom fram á mótmælafundi í Háskólabíói hér fyrr.  Við hjónin veltum því þá fyrir okkur hvernig skoðanakannanir sem taka yfir kannski 600-1000 manns geta verið þá marktækari en þetta? Hafa þær verið teknar hátíðlega en þegar enn fleiri sækja svona mótmælafund þá þýðir það eitthvað annað. Ég skil ekki svona fullyrðingar. Við erum ekki sú þjóð sem vön er að standa fyrir mótmælum og höfum frekar látið allt mögulegt yfir okkur ganga og bölvað í hljóði. Það er bara ný kynslóð að taka við sem lætur ekki vaða yfir sig og sýna og hrífur hina með sér upp úr doðanum. Erum við ekki eitt elsta lýðræðisríki í heiminum? Hvar er lýðræðið núna? Ég hef lesið í blöðum um handtöku og dóma á fólks sem hefur stolið kjötlæri út úr búð, af því það átti ekki fyrir því og það fékk dóma upp á 2-3 mánuði og fleiri dæmi eru um slíka dóma í okkar réttarkerfi. Nú er búið að stela af okkur milljörðum, skuldsetja okkur almenninginn áratugi fram í tímann vegna óráðsnýju annarra.  Hvernig dóma fá þeir? ENGA! Enn sem komið er hefur enginn gengist í ábyrgð fyrir þessar gjörðir og því síður verið dæmdir.  Fylleríinu er lokið. Partýið er búið  og tiltektin er lögð á hendur almennings.  Þetta gat ekki gengið. Hvernig getur ríflega 300.000 manna þjóðfélag haldið úti rekstri á verslun og þjónustu sem þjónað gæti milljónum manna án þess að eitthvað gæfi sig eða væri ekki að ganga. Hvaða fyrirtæki áttu að flytja í öll þessi atvinnuhúsnæði sem byggð voru? Hver átti að búa í öllum þessum íbúðum sem var verið að byggja? Það sá hver heilvita maður að þetta var ekki reikningsdæmi sem gekk upp. Samt var almenningi talið trú um að allt væri í himnalagi, þetta væri ímyndun og hreinlega gefið í skyn að við hefðum ekkert vit á þessu.  Ungu fólki var boðið lán til hægri og vinstri. Keyptu þetta eða hitt og taktu lán og ekkert mál, því nú meikarðu það eins og allir hinir!!! Hvað voru mörg ungmenni sem féllu í þessa gildru? Þau voru ansi mörg og harðfullorðið fólk líka.  Fjármálaráðgjafar voru duglegir að ráðleggja fólki hvað það ætti að gera við peningana sína og margur situr nú með pyngjuna tóma eftir slíkar ráðleggingar.  Hvar eru peningarnir? Fjölmargir vinir foreldra minna áttu ævisparnað í bönkum sem þeir hafa nú misst og sitja uppi með tóma reikninga. Hver bætir þeim tjónið? ENGINN!  Svo eru ráðamenn hissa á því að fólk sé reitt og þetta sé ekki rödd þjóðarinnar sem heyrist berja hús utan og mótmæla. Þeir eldri hafa ekki kjark eða krafta til að framkvæma en heyrt hef ég raddir þeirra og þeir eru stoltir af því að unga fólkið lætur í sér heyra. Sumir segja jú, að þeir hafi nú aðeins farið þarna yfir strikið en að raddir þeirra skuli heyrast er það sem skiptir mestu máli. Enn er sama afneitunin í gangi. Það hefur ekkert breyst og enn eigum við að taka við því.  Gerum við það? Ég á systir sem búið hefur í Bandaríkjunum í 30 ár og er hún iðulega spurð að því hvort ekki sé búið að handtaka þennan eða hinn og hvort þeir sem stóðu að þessu væru ekki búnir að fá dóm? Nei. Hér eru allir þeir sömu við stjórnvölinn og verða það áfram. Hvergi í heiminum myndi slíkt viðgangast.  Búið væri að víkja mönnum úr embættum eða þeir sagt af sér. EN EKKI HÉR Á LANDI!  Í eldri bloggfærslu sagði ég frá orðum móður minnar um að nú væri öld raunsæisins runnin upp.  Sósíalistinn beið skipbrot, kenningin um algera frjálshyggju beið skipbrot  og hvað gerist nú?  Fólk talar um að nú verði önnur gildi uppi sem koma til með að verða hin sönnu verð mæti. Fólkið sjálft. Manneskjan, fjölskyldan og heimilið.  Náttúran og afturhvarf til grasrótarinnar.  Ég tel það vera rétt. Hópar fólks hafa verið að reyna að ríghalda í þetta, koma á framfæri í gegnum árin og reynt að spyrna við fótum. Þetta fólk var talið gamaldags, afturhaldssinnar, grasaguddur og ekki í takt við nýja tíma.  Hvernig getur manneskjan þrifist þegar hún er komin svo langt frá uppruna sínum og eðli? Hún bíður skipbrot. Verðmætamatið hefur verið svo skakkt.  Samkeppnin um flottheitin og ytri gæði hefur verið ráðandi. Flottræfilshátturinn hefur verið hreint yfirgengilegur.  Ég skrapp fyrir þó nokkru síðan niður bæ með vinum og stóðum við fyrir utan veitingahús niður í miðbæ. Haldið þið að það hafi ekki verið um tvær raðir að ræða! Önnur  var fyrir pöpulinn og hinn VIP röð! Ha!  Í borg sem telur ca. 160 þúsund manns, í landi sem telur ríflega 300 þúsund manns!  Þetta fannst mér vera lífsgæðakapphlaupið í hnotskurn og hallærisleg tilraun til að raða fólki í flokka eftir efnum og ástæðum. Ég hef upplifað það eins og verið sé að lyfta upp ákveðnum hópi fólks í svona stílfærðan Hollywood klassa. Getur ekki verið hallærislegra. Rót þessa alls er hin mikla minnimáttarkennd sem einkennir þjóðina. Við ánetjumst öllu og setjum á stall það sem útlenskt er og hefjum það upp til metorða og höfum gert þetta lengi. Nú er lag að breyta því. Við eigum að einblína á okkar sérstöðu, hreina náttúru, hreinar afurðir og hefja aftur til vegs og virðingar íslenskan iðnað. Hvenær ætlum við að læra að meta það sem við höfum hér? Það kemur vonandi á nýju ári með nýjum tímum og breyttri hugsun. Megi nýja árið færa okkur öllum gæfu, gleði og gott gengi í hverju sem við tökum okkur fyrir hendur. Lifið heil.

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband