Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Kempervennen Íslands - sundlaugarparadís!

Þeir sem hafa komið í sumarhúsabyggðina Kempervennen í Hollandi hafa borið augum og líklega notað þá yndislegu tropical sunlaugaparadís sem þar er fyrir alla fjölskylduna. Þeir sem aftur á móti hafa ekki komið þangað né vita um hvað ég er að tala þá er veffangið hjá þar: http://www.dagjekempervennen.nl/  . Þar eru frábærar barnalaugar með leikföngum, sveppum, litlum gosbrunnum fyrir unga börn sem eldri, í aðallaug eru fjöldi rennibrauta staðsettar innan um hitbeltisgróður,  en laugarnar eru staðsettar undir gler-hvolfþaki. Þarna eru veitingastaðir, leikherbergi fyrir lítil börn. Í aðallaug er einnig tilbúinn öldugangur sem settur er í þann hluta laugarinnar sem er eins og "strönd" þ.e. steyptu skái er niður í laugina eins og um sandströnd væri að ræða.  Þarna eru leigð út orlofshús, þar er íþróttaðastaða, baðaðstaða við stöðuvatn með sandströnd, leiksvæði fyrir börn, veitingahús, verslun með meiru. Í Ölfusi er nóg af heitu vatni, væri ekki góð hugmynd að koma upp svona paradís þar! Nóg er orkan (að minnsta kosti ennþá), landsvæði og heitt vatn og ekki má gleyma sandinum! Mætti  ég þá ekki heldur biðja um eitthvað svona í stað álvers, ha!

Íslensk orka á útsölu og fleiri álver er eina sem upp á borði er!

Orka þessa ágæta lands er enn á útsölu og álver og aftur álver er það eina sem mönnum dettur í hug þessa dagana.  Samkvæmt upplýsingum úr dagblöðum síðustu daga er fyrirhugaður "Áltæknigarður" enn í fullum undirbúningi í Þorlákshöfn og fyrirhugað að hefja framkvæmdir sumarið 2009. Einnig er verið að ræða við Alcan um að reisa 280 þúsund tonna álver á sömu slóðum. Ég held að menn séu alveg hreint að tapa sér í stóriðjuframkvæmdum.  Í samtali við Ólaf Áka Ragnarsson bæjarstjóra Þorlákshafnar í einu dagblaðanna í síðustu viku, segir hann að bygging álvers hafi verið kynnt íbúum Þorlákshafnar á fundi í apríl og undirtektirnar góðar. Hið rétta er að þar fór fram kynning á fyrirhuguðum "Áltæknigarði" sem kynntur var fyrst og fremst sem verksmiðja sem fullynni ál og væri einnig sem skóli  og fræðasetur en í fyrstu byrjun yrði framleitt 60 þúsund tonn af áli. Á þessum fundi var dregið úr umfangi álbræðslu og sjónum fundarmanna beint að öðru. Margar spurningar vöknuðu á fundinum meðal fundarmanna og ekki gat ég sem þó sat þennan fund heyrt miklar ánægjuraddir. Þar kom ekki fram heldur að það stæði til að bæta við öðru álveri frá Alcan, 280 þúsund tonn að stærð, enda ekki líklega komið til tals á þeim tímapunkti. Þorlákshafnarbúum hefur því ekki verið kynntar neinar fyrirhugaðar tillögur um annað álver. Þann 13. júní var íbúafundur, þar sem íbúar fóru í  "brainstorming" vinnu með nýjar hugmyndir í atvinnumálum, ferðaþjónustu og mennningarmálum. Allar þær hugmyndir sem komu fram voru hreint frábærar. Þar gaf að líta stórhuga fólk sem hafði yfir að búa nýrri sýn á Þorlákshöfn, sýn á þau ótal tækifæri sem bærinn og nágrenni hans hafa upp á að bjóða.  Ekki var einu orði nefnt álver né Áltæknigarður og held ég að sú framkvæmd sé ekki ofarlega á lista hjá fólki bæjarins. Álið er ekki endilega málið eins og góð vinkona mín Valgerður Halldórsdóttir segir í bloggi sínu.  Orkan okkar og landirými er sett á útsölu. Hér má menga, hér fæst ódýr raforka á spottprís. Hvaða orku eigum við svo eftir til annarrar iðju. Ég held að menn ættu að staldra við, hægja á sér og hugsa aðeins lengra fram í tímann! Orkan er ekki endalaus og við eigurm hreint vatn ennþá og tært loft, hversu lengi verður það? Ég spyr bara!

Haggis er málið!

Skotlandsferðin tókst mjög vel. Við fengum óskaveður, sól og sumarhita. Nokkrir sólbrunnu og útsteyptir í flugnabiti.  Bærinn sem við vorum í, Dunfermline er vel falið leyndarmál. Hann er um 15 mílum frá Edinborg og þar búa um 60 þús. manns. Hann er fullur af sögu, gömlum byggingum og fallegum garði, kirkjum og fleira. Þar hefur hraði stórborga ekki náð tökum sínum á íbúum. Þar er gott að versla, góðir veitingastaðir, einstaklega gott og glatt fólk. Söngurinn í þessari ævagömlu klausturkirkju tókst vel.  Kórinn er ekki vanur að syngja í svo stóru rými en hljómburðurinn var mjög góður og var æðislega gaman að syngja þarna. Var okkur einstaklega vel tekið.  Messuformið er með nokkrum öðrum hætti og gerðum við góða tilraun til að syngja á enskri tungu sálmana með söfnuðinum, sem tókst misjafnlega. Farið var í ferð um hálendið, skoðuð whiskeyverksmiðja m. meiru og farið í kastalaskoðun. Að sjálfsögðu var komið við í Marks og spencer, Slaters og fleiri góðum búðum á leiðinni, bæði í Glasgow og Edinborg.  Skotar er afskaplega jákvæðir og skemmtilegir og gaman að sækja þá heim. Að sjálfsögðu var smakkað á haggis (skoska slátrinu), sem var djúpsteikt með whiskeysósu. Við ættum að nýta okkur þetta og ota slátrinu okkar að ferðamönnum og sem daglegum skyndibita. Haggis er hægt að kaupa daglega á öllum venjulegum skyndibitastöðum í Skotlandi og eru heimamenn að snæða það sem hádegismat í matarhlém sínum sem og kvöldmat. Það mætti kannski taka þann sið hér. Krydda það aðeins meira og svo djúpsteikja og kannski búa til Egils-malt sósu eða brennivínssósu með.  Skora á einhvern kokkinn að prófa sig áfram með þetta.

Skotlandsfarar

Jæja, nú fer það að bresta á. Nú er kórinn okkar, Kór Þorlákskirkju á leið til Skotlands í söngferð í fyrramálið. Mikill undirbúningur hefur átt sér stað og er förinni heitið til Dunfermline sem er um 15 mílum frá Edinborg og mun verða sungið við stóra messu í Abbey kirkjunni.  Við  komum svo til með að syngja á góðgerðarsamkomu sem haldin er til að safna fé fyrir gleymd og  yfirgefin börn í Rúmeníu. Þar eru svo eins og oft, tónlistarmenn sem láta til sín taka. Það svona datt upp í hendurnar á okkur í miðri skipulagningu. Það verður gaman að fara þarna um , sérstaklega þar sem bærinn Dunfermline er fullur af sögu Skotlands og fleira. Þar er fæðingarstaður Andrew Carnegie sem Carnegie Hall í New York heitir eftir og er reist fyrir hans tilstilli. Sem sagt spennandi dagar framundan, stuð og stemmning.   Sjáumst í næstu viku!


Gróðursetning í vændum

Við hjónin fórum í verslunarleiðangur í dag til að kaupa runna og plöntur í garðinn okkar. Við erum að byggja upp garð frá grunni. Á síðasta sumri smíðaði bóndinn þessa flottu upphækkuðu blómakassa eða blómabeð öllu heldur og nú stendur til að gróðursetja í þau. Við brugðum okkur í Garðheima í bænum og má með sanni segja að ég hefði gjarnan viljað fylla bílinn af öllu mögulegu úr þeirri búð! Þarna voru bæði einstaklega falleg tré, runnar, blómstrandi runnar og uppáhaldið mitt "kirsuberjatré". Þarna voru gosbrunnar, styttur, fuglaböð og flott blómaker! Úffa, það var erfitt að velja. Við keyptum, himalajaeinir, rósakvist, bóndarós, skriðmispil og fleira fínerí í beðin okkar. Það  er þvílíkt rok og rigning í kvöld svo lítið verður úr verkum nú. Ég vona að morgundagurinn verði skaplegri til þeirra verka.  Byrja reyndar morguninn á að syngja við sjómannamessu.  Við pöntum sól og gott verður, takk!

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband