Íslensk orka á útsölu og fleiri álver er eina sem upp á borði er!

Orka þessa ágæta lands er enn á útsölu og álver og aftur álver er það eina sem mönnum dettur í hug þessa dagana.  Samkvæmt upplýsingum úr dagblöðum síðustu daga er fyrirhugaður "Áltæknigarður" enn í fullum undirbúningi í Þorlákshöfn og fyrirhugað að hefja framkvæmdir sumarið 2009. Einnig er verið að ræða við Alcan um að reisa 280 þúsund tonna álver á sömu slóðum. Ég held að menn séu alveg hreint að tapa sér í stóriðjuframkvæmdum.  Í samtali við Ólaf Áka Ragnarsson bæjarstjóra Þorlákshafnar í einu dagblaðanna í síðustu viku, segir hann að bygging álvers hafi verið kynnt íbúum Þorlákshafnar á fundi í apríl og undirtektirnar góðar. Hið rétta er að þar fór fram kynning á fyrirhuguðum "Áltæknigarði" sem kynntur var fyrst og fremst sem verksmiðja sem fullynni ál og væri einnig sem skóli  og fræðasetur en í fyrstu byrjun yrði framleitt 60 þúsund tonn af áli. Á þessum fundi var dregið úr umfangi álbræðslu og sjónum fundarmanna beint að öðru. Margar spurningar vöknuðu á fundinum meðal fundarmanna og ekki gat ég sem þó sat þennan fund heyrt miklar ánægjuraddir. Þar kom ekki fram heldur að það stæði til að bæta við öðru álveri frá Alcan, 280 þúsund tonn að stærð, enda ekki líklega komið til tals á þeim tímapunkti. Þorlákshafnarbúum hefur því ekki verið kynntar neinar fyrirhugaðar tillögur um annað álver. Þann 13. júní var íbúafundur, þar sem íbúar fóru í  "brainstorming" vinnu með nýjar hugmyndir í atvinnumálum, ferðaþjónustu og mennningarmálum. Allar þær hugmyndir sem komu fram voru hreint frábærar. Þar gaf að líta stórhuga fólk sem hafði yfir að búa nýrri sýn á Þorlákshöfn, sýn á þau ótal tækifæri sem bærinn og nágrenni hans hafa upp á að bjóða.  Ekki var einu orði nefnt álver né Áltæknigarður og held ég að sú framkvæmd sé ekki ofarlega á lista hjá fólki bæjarins. Álið er ekki endilega málið eins og góð vinkona mín Valgerður Halldórsdóttir segir í bloggi sínu.  Orkan okkar og landirými er sett á útsölu. Hér má menga, hér fæst ódýr raforka á spottprís. Hvaða orku eigum við svo eftir til annarrar iðju. Ég held að menn ættu að staldra við, hægja á sér og hugsa aðeins lengra fram í tímann! Orkan er ekki endalaus og við eigurm hreint vatn ennþá og tært loft, hversu lengi verður það? Ég spyr bara!

Haggis er málið!

Skotlandsferðin tókst mjög vel. Við fengum óskaveður, sól og sumarhita. Nokkrir sólbrunnu og útsteyptir í flugnabiti.  Bærinn sem við vorum í, Dunfermline er vel falið leyndarmál. Hann er um 15 mílum frá Edinborg og þar búa um 60 þús. manns. Hann er fullur af sögu, gömlum byggingum og fallegum garði, kirkjum og fleira. Þar hefur hraði stórborga ekki náð tökum sínum á íbúum. Þar er gott að versla, góðir veitingastaðir, einstaklega gott og glatt fólk. Söngurinn í þessari ævagömlu klausturkirkju tókst vel.  Kórinn er ekki vanur að syngja í svo stóru rými en hljómburðurinn var mjög góður og var æðislega gaman að syngja þarna. Var okkur einstaklega vel tekið.  Messuformið er með nokkrum öðrum hætti og gerðum við góða tilraun til að syngja á enskri tungu sálmana með söfnuðinum, sem tókst misjafnlega. Farið var í ferð um hálendið, skoðuð whiskeyverksmiðja m. meiru og farið í kastalaskoðun. Að sjálfsögðu var komið við í Marks og spencer, Slaters og fleiri góðum búðum á leiðinni, bæði í Glasgow og Edinborg.  Skotar er afskaplega jákvæðir og skemmtilegir og gaman að sækja þá heim. Að sjálfsögðu var smakkað á haggis (skoska slátrinu), sem var djúpsteikt með whiskeysósu. Við ættum að nýta okkur þetta og ota slátrinu okkar að ferðamönnum og sem daglegum skyndibita. Haggis er hægt að kaupa daglega á öllum venjulegum skyndibitastöðum í Skotlandi og eru heimamenn að snæða það sem hádegismat í matarhlém sínum sem og kvöldmat. Það mætti kannski taka þann sið hér. Krydda það aðeins meira og svo djúpsteikja og kannski búa til Egils-malt sósu eða brennivínssósu með.  Skora á einhvern kokkinn að prófa sig áfram með þetta.

Skotlandsfarar

Jæja, nú fer það að bresta á. Nú er kórinn okkar, Kór Þorlákskirkju á leið til Skotlands í söngferð í fyrramálið. Mikill undirbúningur hefur átt sér stað og er förinni heitið til Dunfermline sem er um 15 mílum frá Edinborg og mun verða sungið við stóra messu í Abbey kirkjunni.  Við  komum svo til með að syngja á góðgerðarsamkomu sem haldin er til að safna fé fyrir gleymd og  yfirgefin börn í Rúmeníu. Þar eru svo eins og oft, tónlistarmenn sem láta til sín taka. Það svona datt upp í hendurnar á okkur í miðri skipulagningu. Það verður gaman að fara þarna um , sérstaklega þar sem bærinn Dunfermline er fullur af sögu Skotlands og fleira. Þar er fæðingarstaður Andrew Carnegie sem Carnegie Hall í New York heitir eftir og er reist fyrir hans tilstilli. Sem sagt spennandi dagar framundan, stuð og stemmning.   Sjáumst í næstu viku!


Gróðursetning í vændum

Við hjónin fórum í verslunarleiðangur í dag til að kaupa runna og plöntur í garðinn okkar. Við erum að byggja upp garð frá grunni. Á síðasta sumri smíðaði bóndinn þessa flottu upphækkuðu blómakassa eða blómabeð öllu heldur og nú stendur til að gróðursetja í þau. Við brugðum okkur í Garðheima í bænum og má með sanni segja að ég hefði gjarnan viljað fylla bílinn af öllu mögulegu úr þeirri búð! Þarna voru bæði einstaklega falleg tré, runnar, blómstrandi runnar og uppáhaldið mitt "kirsuberjatré". Þarna voru gosbrunnar, styttur, fuglaböð og flott blómaker! Úffa, það var erfitt að velja. Við keyptum, himalajaeinir, rósakvist, bóndarós, skriðmispil og fleira fínerí í beðin okkar. Það  er þvílíkt rok og rigning í kvöld svo lítið verður úr verkum nú. Ég vona að morgundagurinn verði skaplegri til þeirra verka.  Byrja reyndar morguninn á að syngja við sjómannamessu.  Við pöntum sól og gott verður, takk!

Þorlákshafnarbúar spurðir einskis!

Í frétt á visi.is er haft eftir talsmannai Alcan að viðhorf Þorlákshafnarbúa sé allt annað en Hafnfirðinga til álversins. Það er ekkert skrítið það sem Þorlákshafnarbúar hafa ekki verið spurðir álits. Ég er Þorlákshafnarbúi og les þetta í fjölmiðlum eins og aðrir. Ég sat hinsvegar kynningarfund á svokölluðum "áltæknigarði" í apríl s.l. , en íbúarnir hafa ekki verið enn spurðir hvort þeir viljið áltæknigarð sem er í raun 270 þús tonna álver fullbyggt og svo 280 þúsund tonna álver til viðbótar.   Sjá fyrri bloggfærslur og vek einnig athygli á umfjöllun á www.natturan.is   .
mbl.is Náttúruverndarsamtök skora á ríkisstjórnina að stöðva framkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei hættið þið nú alveg!

Bíðum nú við! Í fréttum í síðustu viku á www.sudurland.is kom fram að fjármagn væri í höfn til byggingar á Áltæknigarði í Þorlákshöfn, sem er í raun 270 þúsund tonna álver fullbyggt. Ekki veit ég til þess að íbúar í Ölfusi hafi yfirleitt verið spurðir að því hvort þeir vilji álver í heimabyggð sína. Nú á enn að gefa í stóriðjuframkvæmdir þrátt fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnar um hlé í þá áttina og athuga með land fyrir Alcan að byggja nýtt álver.  Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins í Straumsvík og voru þær raddir meðal annars uppi að íbúar á Suðurlandi hefðu eitthvað um þetta að segja sem  studdu Hafnfirðinga í þessari baráttu þar sem mótmælt væri virkjun Þjórsár til þessara framkvæmda.  Hvar eru þessar raddir nú? Á að setja hér niður í sveitarfélagið tvö risa álver án þess að íbúar hér hafi neitt um það að segja? Eigum við von á að fá tvö 270 þúsund tonna álver hér í Þorlákshöfn? Á að gera Þorlákshöfn að einhverju stóriðjuþorpi með mengandi starfssemi, óafturkræfum náttúruspjöllum í þágu meiri þenslu og gróða? Landið er sett á útsölu, orkan er á útsölu og erlend stóriðjufyrirtæki græða á okkur þar sem önnur lönd vilja losna við þennan iðnað. Hver er okkar gróði þegar til lengdar lætur?
mbl.is Alcan á Íslandi skoðar möguleika á að færa álverið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krían loksins komin

Já, krían kom aðfaranótt hvítasunnudagsins. Hún er óvenju sein í ár. Kuldinn hefur verið mikill og ekki vænlegt veðurfar til hreiðurgerðar. Það heyrðist í nokkrum kríum um miðja nótt aðfaranótt sunnudagsins hér í móanum við kirkjuna okkar í Þorlákshöfn. Um morguninn var hópur af kríu komnir í varpið og mátt sjá þær flögra um og "garga" eins og hún á að sér að vera. Varpið í fyrra meira eða minna misfórst vegna skorts á æti. Mávurinn var síðan mjög duglegur að hirða upp þá sem komust úr eggi. Það er vonandi að betur gangi í ár. Það er alltaf gaman að fylgjast með henni.  Kannski er sumarið loksins komið!

Óhuggulegt!

Það er óhugglegt að sjá þennan bruna. Ég var að skoða þetta á www.bt.no sem er fréttavefur Bergens Tidende. Þetta er stór olíuhreinsunarstöð ekki langt frá Bergen. Stöðin tekur við óunninni olíu frá Norðursjó. Komið hefur fram að enginn hefur slasast né látist. En mér varð hugsað til Vestfjarða, þar sem fyrirhugað er að setja upp slíka stöð. Skoðið myndirnar á fréttasíðunni. Hún er ljót!.  Smá leiðrétting. Það hafa 10 manns slasast og eru 100 slökkviliðsmenn að berjast við eldana. Allt tiltækt lið frá Bergen er komið á staðinn. Það þarf ábyggilega að vera til gífurlegur útbúnaður til slökkvistarfa vegna svona iðnaðar. Það er ekkert grín ef sprenging verður. Þeir eru kanna hvort geislavirkur úrgangur geti leynst í þessu, en stöðin hreinsar einnig úrgangsolíu frá skipum og öðrum fyrirtækjum. ÓHUGGULEGT! Passar þetta inn í Vestfirskt landslag?

 


Vordagar á Akureyri

Ég var stödd á Akureyri 15. og 16. maí s.l. vegna fundar. Vor var í loftinu þó kalt væri. Sólin var að brjótast í gegnum skýin og snjórinn var að víkja úr fjöllunum. Ég hafði ekki komið í ein 3-4 ár þegar ég lenti þar þann 15.  Þegar við ókum meðfram Pollinum varð mér litið á húsin undir hlíðinn, samblöndu af gömlu fallegu timburhúsunum sem búið er að gera fallega upp og svo ný hús sem byggð eru í svipuðum stíl. Mér var hugsað til miðborgarinnar þar sem ægir öllu saman. Þar gefur að líta gömlu fallegu timburhúsin sem mörg hafa ekki fengið tilhlíðilega upplyftingu, ný hús sem falla engan veginn að götumyndinni.  Þarna er ólíkt farið að.  Í Grófargili er verið að byggja upp gamalt steinhús sem veitingahúsið Friðrik V stendur að.  Þetta leist mér vel á. Götumyndin hélt sér og þarna var fallegt steindhús endurbætt. Hér í borginni hefði þetta verið rifið niður og alglerjaður steinturn reistur í staðinn. Það er svo skrítið með miðborgina og nýbyggingar þar, það er eins og miðbærinn sé samansafn tilraunaverkefna úr arkitektaskóla.  Ægir öllum saman. Nú veit enginn hvað á að gera við Austurstræti 22.  Búið er að gefa þá yfirlýsingu að húsin verði endurbyggð í upprunarlegri mynd, en eftir að Björgólfur Guðmundsson hjá Landsbankanum lét í ljós þá skoðun sýna að þarna gæfist tækifæri til að byggja nýtt hús og fá breytingu á götumyndina hafi komið bakslag í fyrri yfirlýsingar.  Það er mín von að endurbyggt verði samkvæmt upprunarlegri mynd en ef svo illa vildi til að ósk mín rættist ekki vona ég að byggt sé í samræmi við það sem fyrir er. Nútíma steinkastali á ekkert heima innan um þessi gömlu hús. Það ætti að senda þá hér að sunnan norður á Akueyri á námskeið í heilstæðri götumynd. Akureyringar haldið áfram á þessari braut!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband