Vinstri græn vilja stórefla starfsöryggi launamanna.

 
 

            Það eru ófáir launamennirnir sem hafa lent í því að fá uppsögn í starfi án sýnilegrar ástæðu og hreinlega af geðþóttaákvörðun atvinnurekandans.  Slík niðurbrot hafa margir þurft að líða og beðið tjón af.

 

Við búum við það að almennt er ekki lögð sú skylda á atvinnurekendur að tilgreina ástæður þess að launafólki er sagt upp. Einhliða tilkynning um uppsögn nægir og atvinnurekandi getur leyst starfsmann þegar í stað frá störfum en ber eðlilega að greiða laun á uppsagnarfresti.

 

Uppsagnir, svo ekki sé talað um geðþóttauppsagnir, valda mikilli röskun í lífi launamanna. Þær eru álitshnekkur og oft til þess fallnar að meiða æru  launafólks þegar ráðningarsamband hefur staðið lengi og torvelda janframt möguleika þess sem sagt er upp að fá nýtt starf.

Bak við órökstuddar uppsagnir búa oft ástæður sem fela í sér mismunun vegna kynferðis, aldurs, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

 

Órökstuddar uppsagnir þrífast í skjóli leyndar

 

Alþekkt er sú mismunun sem konur sæta í íslensku þjóðfélagi vegna kynbundins launamunar og kynbundins ofbeldis. Þær sæta einnig órökstuddum uppsögnum vegna kynferðis síns auk þess að vera mismunað við ráðningar á lakari kjör í víðustu merkingu þess orðs. Þá færist það mjög í vöxt,  að miðaldra og eldra fólki með langan starfsaldur sé sagt upp og yngra starfsfólk ráðið í staðinn.  En leyndin, sú staðreynd að ekki þurfi að rökstyðja uppsagnir, útilokar ávallt alla sönnun um að þim sem sagt er upp, hafi verið mismunað. 

 

Reynslan virðist vera sú að harka og óbilgirni í samskiptum atvinnurekenda við starfsfólk færist í vöxt. Svo er sjá að ný kynslóð auðmanna, sem hafa á undanförnum árum keypt eða yfirtekið hvert stórfyrirtækið af öðru, gjarnan að frumkvæði og fyrir fjármagn einokunarbankanna, beri meiri virðingu fyrir arði af fjármagni sínu og bankanna en fólki. Það er skelfilegt að horfa til þess að starfsfólki sé sagt upp fyrirvaralaust og gert að hirða persónuleg gögn sín og hypja sig af vinnustað samdægurs undir eftirliti eins og um glæpamenn væri að ræða.

 

Vinstri græn vilja styrkja rétt launafólks.

 

Í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, frá 1982 um uppsögn og ráðningarsamninga (ILO-158)  er kveðið á um að sú meginregla gildi að atvinnurekandi megi ekki segja starfsmanni upp, nema ákvörðun sé byggð á atvikum er varða hæfni og hátterni hans eða ástæðum sem varða atvinnureksturinn. Gerð er krafa um gildar ástæður. Svipaðar reglur hafa verið teknar upp í alþjóðasáttmála, svo sem félagsmálasáttmála Evrópu.

 

Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur ekki verið innleidd hér á landi. Í löggjöf flestra Evrópuríkja hafa verið sett lög sem takmarka uppsagnarrétt atvinnurekenda. Þau hafa lögleitt skilyrði um það að gildar og málefnalegar ástæður verði að liggja til grundvallar ákvörðun um uppsögn. Dómstólar hafa einnig verið afar tregir til að dæma miskabætur. Atli Gíslason hrl., sem skipar 1. sæti framboðslista Vinstri grænna  í Suðurkjördæmi hefur samið slíkt frumvarp og lagt fram á Alþingi með þingmönnum VG til að koma í veg fyrir hömlulaust frelsi atvinnurekenda til uppsagna starfsmanna. Það hefur í tvígang verið endurflutt en hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn hafa ljáð máls jafn sjálfsögðum réttarbótum.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur yfir höfuð ekki verið hljómgrunnur fyrir því að rétta við hlut launafólks eða skapa þann lagalega grunn til að tryggja rétt þess.

Það er tími til kominn að skipta út mannskapnum í brúnni! Nú er lag.

 

Sigurlaug B. Gröndal , skipar 13. sæti VG í Suðurkjördæmi

Alma Lísa Jóhannsdóttir, skipar 2. sæti VG í Suðurkjördæmi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband