Allir launþegar - gleðilega hátíð á baráttudegi verkalýðsins 1. maí!

Í dag er 1. maí, baráttudagur launþega. Slagorð þessa dags í ár er "Verjum kjörin". Af hverju? Á þessu ári, þann 11. júní næstkomandi eru nákvæmlega liðin 70 ár frá því að lög um stéttarfélög og vinnudeilur voru samþykkt á alþingi og tóku gildi.  Þessi lög eru ramminn utan um stéttarfélögin, verkföll og vinnudeilur, rétt launþega til að stofna stéttarfélög og vera í stéttarfélögum. Þau halda einnig utan um starf trúnaðarmanna á vinnustöðum. Það er búið að taka áratugi að öðlast þann rétt sem við höfum í dag. Fyrri kynslóðir börðust harðri baráttu til þess að öðlast þau. Sumir  af yngri kynslóðinni halda að þetta hafi alltaf verið til staðar.  Það er ekki ýkja langt síðan að laugardagur var vinnudagur eða að sumarleyfisdagar urðu 24 dagar. Það hefur margt gerst á þessum 70 árum, en við erum líka enn að berjast þessum 70 árum seinna.  Baráttan meðal annars felst í því að verja þau kjör sem við höfum. Með einstaklingssamningum við einkafyrirtæki er reynt að fá launþega til að semja sig undan einstökum ákvæðum kjarasamninga gegn aðein hærri greiðslum og má þar nefna orlof og veikindarétt.  Staða trúnaðarmanna ætti að vera mun sterkari á vetvangi en hún er eftir öll þessi ár. Enn eru fyrirtæki að gera starfsmönnum sínum erfitt með að kjósa sér trúnaðarmann og eru oft lífdagar þeirra ekki langir innan sumra fyrirtækja.  Trúnaðarmenn gegna mikilvægu hlutverki á hverjum vinnustað og fyrir sína samstarfsmenn. Þeir eru upplýsingaveita um réttindi og skyldur. Þeir koma oft í veg fyrir að ágreiningur verði að óleysanlegum deilum. Er það eitthvað til að forðast? Ég hef það oft á tilfinningunni að þau fyrirtæki sem hafa neikvætt viðhorf til starfs trúnaðarmanna hafi sitthvað óhreint í pokahorninu. 

"Verjum kjörin" er einmitt það sem við stöndum frammi fyrir á hverjum degi. Baráttunni er hvergi lokið.  Ungt fólk verður frekar fyrir barðinu á skertum kjörum, þar sem ákvæðum kjarasamninga er ekki fylgt eftir.  Ég hvet foreldra ungmenna að fylgjast með kjörum barna sinna og vera vakandi fyrir því að farið sé eftir þeim samningum sem í gildi eru. 

Brot á kjarasamningum er brot á lögum. Þeir byggja á landslögum og má þar nefna að ákvæði um orlof er bundið í lög, uppsagnarfrestur, greiðslur vegna veikinda og slysa, skylda atvinnurekenda að greiða í sjúkrasjóð stéttarfélaganna, réttindi fólks í hlutastörfum, bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar og fleira má telja.

Hvet alla til að skoða vef Félagsmálaráðuneytisins þar sem flest þau lög sem snúa að vinnurétti eru þar á einnig síðu.

http://www.felagsmalaraduneyti.is/malaflokkar/vinnumal/log/

Skoðið einnig vef Alþýðusambands Íslands  www.asi.is

Gleðilega hátíð og njótið dagsins! 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Trúnaðarmenn er illa séðir á mörgum stöðum. Það er mikið af stöðum sem borga svokallað jafnaðarkaup sem er nær alltaf tap fyrir launþegann.

Ég veit þar sem ég þekki nokkuð til innan veitinga-og ferðageiranns er mjög víða mikið eftir af vinnu í réttindamálum. Segir trúlega mikið um það fólk sem á eða rekur staðina.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 1.5.2008 kl. 20:49

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Það er mikið rétt. Jafnaðarkaup er víða greitt og eru einmitt veitingahús, skyndibitastaðir, ferðabransinns og sjoppur. Einnig svo mekilegt sem það er þá hafa íþróttafélögin verið svolítið slæm með þetta. Annað sem sem er að gerast í m.a. byggingageiranum, sérstaklega hjá smærri verktökum er að greiða orlof út jafnóðum, mánaðarlega sem gerir það að verkum að launþeginn getur nánast aldrei tekið sér frí. Þetta er óheimilt skv. lögum og einnig er oft verið að blekkja launþegann. Hann hefur í raun enga hugmynd um hve raunverulegt tímakaup hans er. Kemur fyrir að þegar orlofið er afreiknað af tímakaupinu þá eru viðkomandi langt undir markaðslaunum, jafnvel lágmarkslaunum. Það þarf virkilega að vekja fólk til umhugsunar.

Sigurlaug B. Gröndal, 2.5.2008 kl. 08:40

3 Smámynd: Björg Árnadóttir

Nú ætla ég að opinbera smá vankunnáttu af því mér sýnist þú vera með þetta á hreinu: Er bannað að greiða út orlof af yfirvinnu? Ég veit að það eru margir sem greiða út orlof af yfirvinnu þannig að þegar að orlofstöku kemur þá eru dagvinnulaunin greidd. Hvað segir þú um þetta?

Björg Árnadóttir, 3.5.2008 kl. 12:19

4 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Allt orlof, hvort sem er af dagvinnu eða yfirvinnu er ekki heimilt að greiða út. Annaðhvort er allt orlof lagt inn í banka eða að launamaður safnar orlofsstundum af dagvinnu og síðan er orlof af yfirvinnu lagt inn á orlofsreikning í banka. Þetta eru algengustu leiðirnar. Það eru margir sem misskilja orðanna hljóðan í lögunum en í bók Láru V. Júlíusdóttur hrd "Lög og réttindi á vinnumarkaði" útskýrir hún þetta vel og fer vel í þennan misskilning. Launamaður á að fá orlofið í raun þegar hann fer í orlof eða þegar að orlofsreikningar eru lausir í lok orlofsársins, oftast 11. maí.

Sigurlaug B. Gröndal, 4.5.2008 kl. 01:17

5 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Mér finnst samstaða launafólks hafa verið rofin eftir að hver og einn var hvattur til að semja fyrir sig. Launaleyndin hjálpar svo ekki til og þar eru það sérstaklega konur sem verða undir.

Steingerður Steinarsdóttir, 5.5.2008 kl. 16:35

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já verkalýðsbaráttan er ekki svipur hjá sjón í dag mín kæra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.5.2008 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband