Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Þorlákshafnarbúar spurðir einskis!

Í frétt á visi.is er haft eftir talsmannai Alcan að viðhorf Þorlákshafnarbúa sé allt annað en Hafnfirðinga til álversins. Það er ekkert skrítið það sem Þorlákshafnarbúar hafa ekki verið spurðir álits. Ég er Þorlákshafnarbúi og les þetta í fjölmiðlum eins og aðrir. Ég sat hinsvegar kynningarfund á svokölluðum "áltæknigarði" í apríl s.l. , en íbúarnir hafa ekki verið enn spurðir hvort þeir viljið áltæknigarð sem er í raun 270 þús tonna álver fullbyggt og svo 280 þúsund tonna álver til viðbótar.   Sjá fyrri bloggfærslur og vek einnig athygli á umfjöllun á www.natturan.is   .
mbl.is Náttúruverndarsamtök skora á ríkisstjórnina að stöðva framkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei hættið þið nú alveg!

Bíðum nú við! Í fréttum í síðustu viku á www.sudurland.is kom fram að fjármagn væri í höfn til byggingar á Áltæknigarði í Þorlákshöfn, sem er í raun 270 þúsund tonna álver fullbyggt. Ekki veit ég til þess að íbúar í Ölfusi hafi yfirleitt verið spurðir að því hvort þeir vilji álver í heimabyggð sína. Nú á enn að gefa í stóriðjuframkvæmdir þrátt fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnar um hlé í þá áttina og athuga með land fyrir Alcan að byggja nýtt álver.  Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins í Straumsvík og voru þær raddir meðal annars uppi að íbúar á Suðurlandi hefðu eitthvað um þetta að segja sem  studdu Hafnfirðinga í þessari baráttu þar sem mótmælt væri virkjun Þjórsár til þessara framkvæmda.  Hvar eru þessar raddir nú? Á að setja hér niður í sveitarfélagið tvö risa álver án þess að íbúar hér hafi neitt um það að segja? Eigum við von á að fá tvö 270 þúsund tonna álver hér í Þorlákshöfn? Á að gera Þorlákshöfn að einhverju stóriðjuþorpi með mengandi starfssemi, óafturkræfum náttúruspjöllum í þágu meiri þenslu og gróða? Landið er sett á útsölu, orkan er á útsölu og erlend stóriðjufyrirtæki græða á okkur þar sem önnur lönd vilja losna við þennan iðnað. Hver er okkar gróði þegar til lengdar lætur?
mbl.is Alcan á Íslandi skoðar möguleika á að færa álverið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krían loksins komin

Já, krían kom aðfaranótt hvítasunnudagsins. Hún er óvenju sein í ár. Kuldinn hefur verið mikill og ekki vænlegt veðurfar til hreiðurgerðar. Það heyrðist í nokkrum kríum um miðja nótt aðfaranótt sunnudagsins hér í móanum við kirkjuna okkar í Þorlákshöfn. Um morguninn var hópur af kríu komnir í varpið og mátt sjá þær flögra um og "garga" eins og hún á að sér að vera. Varpið í fyrra meira eða minna misfórst vegna skorts á æti. Mávurinn var síðan mjög duglegur að hirða upp þá sem komust úr eggi. Það er vonandi að betur gangi í ár. Það er alltaf gaman að fylgjast með henni.  Kannski er sumarið loksins komið!

Óhuggulegt!

Það er óhugglegt að sjá þennan bruna. Ég var að skoða þetta á www.bt.no sem er fréttavefur Bergens Tidende. Þetta er stór olíuhreinsunarstöð ekki langt frá Bergen. Stöðin tekur við óunninni olíu frá Norðursjó. Komið hefur fram að enginn hefur slasast né látist. En mér varð hugsað til Vestfjarða, þar sem fyrirhugað er að setja upp slíka stöð. Skoðið myndirnar á fréttasíðunni. Hún er ljót!.  Smá leiðrétting. Það hafa 10 manns slasast og eru 100 slökkviliðsmenn að berjast við eldana. Allt tiltækt lið frá Bergen er komið á staðinn. Það þarf ábyggilega að vera til gífurlegur útbúnaður til slökkvistarfa vegna svona iðnaðar. Það er ekkert grín ef sprenging verður. Þeir eru kanna hvort geislavirkur úrgangur geti leynst í þessu, en stöðin hreinsar einnig úrgangsolíu frá skipum og öðrum fyrirtækjum. ÓHUGGULEGT! Passar þetta inn í Vestfirskt landslag?

 


Vordagar á Akureyri

Ég var stödd á Akureyri 15. og 16. maí s.l. vegna fundar. Vor var í loftinu þó kalt væri. Sólin var að brjótast í gegnum skýin og snjórinn var að víkja úr fjöllunum. Ég hafði ekki komið í ein 3-4 ár þegar ég lenti þar þann 15.  Þegar við ókum meðfram Pollinum varð mér litið á húsin undir hlíðinn, samblöndu af gömlu fallegu timburhúsunum sem búið er að gera fallega upp og svo ný hús sem byggð eru í svipuðum stíl. Mér var hugsað til miðborgarinnar þar sem ægir öllu saman. Þar gefur að líta gömlu fallegu timburhúsin sem mörg hafa ekki fengið tilhlíðilega upplyftingu, ný hús sem falla engan veginn að götumyndinni.  Þarna er ólíkt farið að.  Í Grófargili er verið að byggja upp gamalt steinhús sem veitingahúsið Friðrik V stendur að.  Þetta leist mér vel á. Götumyndin hélt sér og þarna var fallegt steindhús endurbætt. Hér í borginni hefði þetta verið rifið niður og alglerjaður steinturn reistur í staðinn. Það er svo skrítið með miðborgina og nýbyggingar þar, það er eins og miðbærinn sé samansafn tilraunaverkefna úr arkitektaskóla.  Ægir öllum saman. Nú veit enginn hvað á að gera við Austurstræti 22.  Búið er að gefa þá yfirlýsingu að húsin verði endurbyggð í upprunarlegri mynd, en eftir að Björgólfur Guðmundsson hjá Landsbankanum lét í ljós þá skoðun sýna að þarna gæfist tækifæri til að byggja nýtt hús og fá breytingu á götumyndina hafi komið bakslag í fyrri yfirlýsingar.  Það er mín von að endurbyggt verði samkvæmt upprunarlegri mynd en ef svo illa vildi til að ósk mín rættist ekki vona ég að byggt sé í samræmi við það sem fyrir er. Nútíma steinkastali á ekkert heima innan um þessi gömlu hús. Það ætti að senda þá hér að sunnan norður á Akueyri á námskeið í heilstæðri götumynd. Akureyringar haldið áfram á þessari braut!

 


Dagurinn í dag - dagur breytinga!

Nú er runninn upp kosningadagurinn, dagurinn sem allt snýst um og getur breytt öllu! Hvað ætlum við að kjósa um í dag? 

Við ætlum að kjósa um - norrænt velferðarsamfélag  fyrir alla, umhverfisvernd og vernd á íslenskri náttúru, kvenfrelsi, launajafnrétti, menntun fyrir alla, afnema mismun vegna búsetu, stöðva útsölu á landinu fyrir erlenda stóriðju, ábyrga efnahagsstjórn, að bæta af komu sveitarfélaganna, um tlækifæri til nýsköpunar. Kjósum um græna framtíð- allt annað líf! 

Megi allir landsmenn hvar sem þeir kjósa og hvern sem þeir kjósa eiga góðan dag.  


Áltæknigarður – hvað þýðir það?

Nú stendur til að reisa „áltæknigarð" í Þorlákshöfn á næstu árum á. Garðinum hefur verið lýst afar fallega, þar fari fram fullvinnsla á áli, þar séu tæknistörf og allt svo gott og fallegt. Hins vegar er ekki eins mikið rætt um það að til þess að þetta gangi nú upp þurfi að reisa 270 þúsund tonna álver til að byrja með álbræðslu. Þess má geta að álverið í Straumsvík er „aðeins" 170 þúsund tonn.

Sérkennilegt er hversu lítið hefur verið talað um þetta umrædda álver og hversu sjaldgæft það er að álverið sé nefnt sínu réttu nafni. Orðið áltæknigarður minnir á nafn á skemmtigarði og fær það því kannski jákvæðari mynd út á við. Hvort vísvitandi sé verið að blekkja íbúða sveitarfélagsins vil ég ekki fullyrða um en það hvarflar að manni.

Staðsetning „áltæknigarðsins" á að vera 8 km vestan við Þorlákshöfn og ég get ekki annað en fundið út samkvæmt landakorti að það muni að hluta til vera reist inni á vatnsverndarsvæðum Þorlákshafnar. Umhverfismat hefur ekki farið fram en verður hafið í sumar.

Á kynningarfundi sem haldinn var í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn þann 17. apríl síðastliðinn var  kynntur í máli og myndum umræddur „áltæknigarður". Jón Hjaltalín Magnússon lýsti fjálglega þeirri dýrð sem þessi „garður" hefði í för með sér. Byrjað væri á 60.000 tonna álveri og þyrfti það aðeins 100 MW orku sem kæmi úr Hellisheiðavirkjun. Allt mjög umhverfisvænt og gott. Þarna færi síðan fram fullvinnsla á áli og framleitt meðal annars hlutir í bæði flugvélar og bíla. Síðan yrði reist þar safn og skóli þar sem bæði innlendir og erlendir nemendur í tæknigreinum gætu numið. Þá er sagt að ferðamannstraumur myndi aukast til muna.

Ég spyr - hvenær hefur það verið eftirsóknarvert fyrir ferðamenn að skoða álverksmiðjur? Ég veit ekki betur en að ferðamenn sem hingað koma vilji skoða ósnortna náttúru Íslands og það stórbrotna landslag sem hér er fyrir hendi!

Ég kom með þá ábendingu á fundinum að í dag væri í auknu mæli farið að nota koltrefjar í flugvélar og einnig verið að hefja notkun á því við framleiðslu bíla. Einnig kom fram hjá einum fundarmanna að útflutningur og framleiðsla á fullunnum íhlutum í bíla væri bæði dýr og líklega mjög óhagstæður.

Sú spurning kom einnig fram úr sal hvort nauðsynlegt væri að byggja álbræðslu og hvort ekki væri skynsamlegra að fá ál frá þeim verksmiðjum sem þegar væru að framleiða ál hér á landi? Í svari Jóns kom fram að búið væri að selja álframleiðslu þeirra 10 ár fram í tímann. Hvað er þá verið að fara af stað með? Fyrst og fremst gríðarlega stórt álver!

Það  yrði síðan stækkað í áföngum upp í 270 þúsund tonn og við stækkunina væri horft á virkjun Þjórsár sem orkugjafa en orkuþörfin næmi þá um 460 MW fullbyggt. Á fundinum kom einnig fram að byggðaþróun til suðurs myndi stöðvast.

Það er alveg ljóst að fjölga þarf atvinnutækfifærum í Ölfusi sem og Árborg, en af hverju eru álver það eina sem mönnum dettur alltaf í hug? Það eru ekki allir yfir sig hrifnir af að fá álver í túnfótinn hjá sér. Um óafturkræfar framkvæmdir væri að ræða sem skemmt gætu fyrir öðrum fyrirtækjum sem framleiða hreina náttúruafurð, svo sem vatnið okkar tæra og góða, landbúnaðarvörur og svo ferðamannaiðnaðurinn, sem gefur okkur miklar gjaldeyristekjur. Hérna í Þorlákshöfn erum við með hliðið inn í „eldfjallagarðinn" á Reykjanesi. Hér má byggja upp mikla ferðaþjónustu og fleiri fyrirtæki sem ekki eru með mengandi starfsemi. Veita þarf þeim fyrirtækjum sem fyrir eru stuðning til að auka framleiðslu sína, veita þeim aðgang að þolinmóðu fjármagni og efla þannig frumkvæði og hugmyndaflug þeirra sem landið byggja.
Við erum með landið að láni - hvernig ætlum við að skila því af okkur til komandi kynslóða?

Höfundur  Sigurlaug B. Gröndal skipar 13 . sæti VG í Suðurkjördæmi.

Greinin var birt í Sunnlenska fréttablaðinu, Bæjarlíf og Víkurfréttum 10. maí s.l.


Með sól í hjarta og söng á vörum..........

Jæja, undakeppni Eurovision búin og allir á suðupunkti. Það er víst ábyggilegt að vestur-Evrópsk tónlinstarmenning á ekki upp á pallborðið þarna syðra og eystra í henni álfu.  Hvað er til ráða? Ég legg til að við norðurlandabúar efnum til árlegrar norrænnar dægurlagatónlistarhátíðar þar sem bæði ungir sem eldri tónlistarmenn sýna og sanna sig í hinni ýmsu gerð tónlistar. Það má keppa í þungarokki, jazz, poppi, teknó, danstónlist og fleira. Ein allsherjar hátíð! Bæði Norðmenn og Svíar hafa verið með einhverjar slíkar hátíðir og afraksturinn er ferskir vindar í tónlistinni, nýir tónlistarmenn koma fram.  Við eigum ekki að láta þetta lemja okkur niður. Við eigum fullt af góðum tónlistarmönnum sem fleiri kunna að meta en suður og austur Evrópa. Hvernig væri að hrinda svona hátíð af stað, hvet tónlistarmenn á öllum aldri að hlutast til um að hefja norræna tónlist til vegs og virðingar. Við heyrum m.a. alltof lítið spilað af norrænni tónlist í útvarpi. Nú er lag að breyta til. Allir saman nú 1,2,3 og við ætlum að vera svo ósköp þæg og góð , svo allir geta haft það gott hjá vorri þjóð........................!

Lokaspretturinn

Nú er lokaspretturinn að kosningunum á laugardaginn. Komin er viss taugaveiklun í gang hjá sumum frambjóðendum.  Skoðanakannanir hafa verið mjög sveiflukenndar og oft á tíðum ótrúverðugar.  Verst þykir mér þegar menn detta í þá gryfju að hefja skítkast og leiðindi í menn og málefni. Dæmi um það er kæran á hendur Ómari Ragnarssyni fyrir meint umhvefisspjöll. Ómar var á undan sinni samtíð að berjast fyrir bættri umgengni við íslenska náttúru þegar hann vann við gerð Stikluþáttanna. Hann kynnti óbyggðir landsins fyrir þjóðinni, staði sem fólk hafði aldrei augum litið og vissi ekki af. Hann var þá og er enn ótrauður að benda á slæma umgengni, akstur utanvega og fleira sem betur mætti fara auk baráttu fyrir verndun landshluta og svæða fyrir ágengni og óafturkræfri eyðileggingu vegna virkjunarframkvæmda.  Ágætu landsmenn, það er ekkert vitað fyrr en búið er að telja upp úr kjörkössunum! Sýnið hvert öðru virðingu í allri umfjöllun um menn og málefni á lokasprettinum. Það er vond kosningabarátta að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra.


Næsta síða »

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband