Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Vetrarríkið í gryfjunni

Það hefur verið hálfgerð bloggþurrð á bænum síðustu daga. Reyndar hefur verið mikið að gera og meðal annars var ég á Ísafirði að kenna í vikunni.  Það var gaman að sækja Ísfirðinga heim og einmuna fallegt vetrarveður þegar ég var þar.  Ég var að koma rétt í þessu neðan úr gryfjunni góðu sem ég skrepp með hana Tinnu mína til að hún fái smá útrás á hlaupunum, en hún er svakalegur orkuboltu og þarf að fá að spretta úr spori. Venjulegar gönguferðir duga henni ekki enda af smalahundakyni. Læt fylgja með fallega vetrarmynd og mynd af henni sem ég tók þarna í dag. Það skipti snöggt yfir í veðrinu frá því að vera hörkusnjókoma og hálfdimmt yfir í heiðríkju og sól eins og sjá má á myndunum. 

Í snjónum Tinna240208 030


Meistaraverk dagsins!

Tja, hvað haldið þið! Við mæðginin, ég og frumburðurinn gölluðum okkur í suðvestan strekkingi og slyddu og ætluðum með hundspottið okkar hana Tinnu í fyrsta skipti niður í Skötubót til að leyfa henni að hlaupa í fjörunni og kynnast sjónum.  Við ókum sem leið lá niður við Gámastöð og ókum með varnargarðinum þar eins langt og við komumst. Þar klöngruðumst við í klaka og snjó niður í fjöru. Sjórinn úti fyrir var stórbrotinn að sjá, ólgandi aldan há og tignaleg. Við slepptum Tinnu og leyfðum henni að hlaupa um eins og henni einni er lagið. Hún hafði aldrei hlaupið í fjöru og því var svo margt að þefa af og skoða. Svo virtist sem það væri að fjara. Við gengum áfram og ákváðum að labba með henni nær sjávarborðinu og leyfa henni að dífa "pótonum" sínum í saltan sjó. Nema hvað, Tinna tekur á sprett upp í fjöru, inn kemur stór alda og við tökum sprettinn. Ekki náðum við í tæka tíð og allt í einu stóðum við með sjóinn upp á mið læri í ísköldu öldurótinu sem var svart nánst af sandi. Við gátum ekki annað en horft á hvort annað og skellihlegið. Ísköld og hundblaut svo bullaði í gönguskónum, röltum við að bílnum aftur. Það var nefninlega ekki að fjara heldur flæða að og mundum ekkert eftir því að ca. 5 hver alda er stór og mikil og getur hrifið jafnvel fólk með sér.  Þarna hafði Tinna vitið fram yfir okkur! Heit sturta, þvottur á skóm og fatnaði var það fyrsta sem gert var þegar heim var komið. Því næst var Tinna böðuð, enda lyktin af henni eins og af saltfiski, fyrir utan allan sandinn sem hún bar með sér í feldinum. Það verður bið þangað til við förum í fjöruferð með hundinn!Wink

Þrengsli lokuð

Já, það hefur mikið snjóað og ekki búið. Ég hringdi í Vegagerðina áðan til að athuga hvort mér væri óhætt að aka til vinnu minnar vegna færðar. Kom þá í ljós að Þrengslin eru lokuð og á Hellisheiðinni er þæfingur og talið að fjórhjóladrifsbílar ættu að klára það að komast yfir. Rafmagnið hér er búið að vera að blikka í morgun. Vonandi lagast þetta.  Spáir víst ekki góðu á morgun. Stormi og fleira. Það var aldeilis að veturinn kom hér á Fróni.


mbl.is Ófærð í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kuldaboli bítur og norðurljósin dansa

Ja, nú er frost á Fróni. Ég var á leið minni frá dóttur minni í gærkvöldi og heim. Þegar ég settist upp í bílinn og setti hann í gang var mér litið á hitamælinn í bílnum sem mælir hita bæði innan í honum og utan. Inni í bílnum voru -10°c og úti voru -17°c!. Vá! Ég ók sem leið lá upp úr Breiðholtinu og upp að Rauðavatni, þar var frostið komið niður í -18°c. Toppurinn var rétt áður en komið var að Sandskeiði -20°c. Svo mikið frost hefur ekki komið hér í nokkur ár. Gosflaska sem var í bílnum hafði náð því að botnfrjósa um nóttina. Ekki nema von að sundlaugar séu lokaðar á vesturlandi og víða. Það þarf ansi mikið heitt vatn til að kynda upp  hýbýlin þessa dagana. Í gærkvöldi var sem sá stórkostlegasti norðurljósadans sem ég hef séð. Þau flögruðu á ógnarhraða neon græn, hvít og bleik. Skilyrðin voru mjög góð. Heiðskírt  og hrökufrost. Þvílíkt sjónarspil. dóttir mín náði nokkrum myndum af þeim. Ef heiðskírt verður í kvöld ætti fólk að fara út og kíkja til himins og sjá hvort þetta endurtaki sig. Góða helgi.

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband