Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Vatnsverndarsvæðin eru okkar "Gullnámur"

Það er með ólíkindum hvað gengið er illa um vatnsverndarsvæðin okkar. Hreint og ómengað vatn fer að verða fágæt vara í heiminum.  Þeim stöðum fækkar með árunum og áratugunum sem geta státað af eins hreinu og ómenguðu vatni eins og við. Þetta eru okkar Gullnámur sem okkur ber að varðveita eftir fremsta megni. Við erum ekki ein í heiminum og því er það skylda okkar að varðveita það og ganga um vatnsverndarsvæðin af fullri virðingu. Þessi ítrekuðu slys í Heiðmörk sýna glögglega að ekki er nógu varlega farið og reglur um umgengni á þessu verður að herða. Því þykir mér það alveg með ólíkindum sú ákvörðun og umræða að byggja "álgarð"  í Þorlákshöfn. Þorlákshöfn stendur á gríðarlega stóru vatnsbóli sem hefur að geyma hreint og tært vatn í miklu magni. Höfum við efni á því að spilla því?  Eigum við að fórna Gullnámunum okkar fyrir skyndigróða?
mbl.is Umhverfisráðherra telur brýnt að beina starfsemi frá vatnsverndarsvæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umferðarmenningin hér er rússnesk rúlletta!

Það er alveg með ólíkindum hvernig umferðarmenningin er hér á landi. Ég ek til og frá vinnu daglega milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur sem er ekki í frásögu færandi nema til þess að hafa orð á því hvernig menn haga sér í umferðinni. Ég tel mig aka á þokkalegum hraða eða um 90-100 km hraða ef vel viðrar, en þegar menn eru komnir hreinlega á stuðarann hjá manni og flutningabílar með fullfermi aka fram úr manni þar sem þeim þykir 95 km hraði ekki nægur, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90km. 

Í þeirri færð sem hefur verið undanfarið, krapi, ísregn og snjór þá get ég ekki skilið framúrakstur 30 tonna malarflugningabíla í slíku færi.  Svo virðist einnig að virt sé að vettugi að ekki sé heimill framúrakstur þar sem tvöföld óbrotin lína er til staðar milli akreina, en ótal ökumenn hef ég séð iðka þetta í Lögbergsbrekkunni sem og í Þrengslum.  Er nokkuð skrítið að alvarleg umferðarslys eigi sér stað þegar við bætist slitnir og þröngir vegir. Það er verið að spila rússneska rúllettu í umferðinni. Það er ekki hægt að kalla þetta annað! Ökumenn munið ábyrgð ykkar þegar þið setjist undir stýri og farið af stað út í umferðina!


Vinstri græn vilja stórefla starfsöryggi launamanna.

 
 

            Það eru ófáir launamennirnir sem hafa lent í því að fá uppsögn í starfi án sýnilegrar ástæðu og hreinlega af geðþóttaákvörðun atvinnurekandans.  Slík niðurbrot hafa margir þurft að líða og beðið tjón af.

 

Við búum við það að almennt er ekki lögð sú skylda á atvinnurekendur að tilgreina ástæður þess að launafólki er sagt upp. Einhliða tilkynning um uppsögn nægir og atvinnurekandi getur leyst starfsmann þegar í stað frá störfum en ber eðlilega að greiða laun á uppsagnarfresti.

 

Uppsagnir, svo ekki sé talað um geðþóttauppsagnir, valda mikilli röskun í lífi launamanna. Þær eru álitshnekkur og oft til þess fallnar að meiða æru  launafólks þegar ráðningarsamband hefur staðið lengi og torvelda janframt möguleika þess sem sagt er upp að fá nýtt starf.

Bak við órökstuddar uppsagnir búa oft ástæður sem fela í sér mismunun vegna kynferðis, aldurs, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

 

Órökstuddar uppsagnir þrífast í skjóli leyndar

 

Alþekkt er sú mismunun sem konur sæta í íslensku þjóðfélagi vegna kynbundins launamunar og kynbundins ofbeldis. Þær sæta einnig órökstuddum uppsögnum vegna kynferðis síns auk þess að vera mismunað við ráðningar á lakari kjör í víðustu merkingu þess orðs. Þá færist það mjög í vöxt,  að miðaldra og eldra fólki með langan starfsaldur sé sagt upp og yngra starfsfólk ráðið í staðinn.  En leyndin, sú staðreynd að ekki þurfi að rökstyðja uppsagnir, útilokar ávallt alla sönnun um að þim sem sagt er upp, hafi verið mismunað. 

 

Reynslan virðist vera sú að harka og óbilgirni í samskiptum atvinnurekenda við starfsfólk færist í vöxt. Svo er sjá að ný kynslóð auðmanna, sem hafa á undanförnum árum keypt eða yfirtekið hvert stórfyrirtækið af öðru, gjarnan að frumkvæði og fyrir fjármagn einokunarbankanna, beri meiri virðingu fyrir arði af fjármagni sínu og bankanna en fólki. Það er skelfilegt að horfa til þess að starfsfólki sé sagt upp fyrirvaralaust og gert að hirða persónuleg gögn sín og hypja sig af vinnustað samdægurs undir eftirliti eins og um glæpamenn væri að ræða.

 

Vinstri græn vilja styrkja rétt launafólks.

 

Í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, frá 1982 um uppsögn og ráðningarsamninga (ILO-158)  er kveðið á um að sú meginregla gildi að atvinnurekandi megi ekki segja starfsmanni upp, nema ákvörðun sé byggð á atvikum er varða hæfni og hátterni hans eða ástæðum sem varða atvinnureksturinn. Gerð er krafa um gildar ástæður. Svipaðar reglur hafa verið teknar upp í alþjóðasáttmála, svo sem félagsmálasáttmála Evrópu.

 

Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur ekki verið innleidd hér á landi. Í löggjöf flestra Evrópuríkja hafa verið sett lög sem takmarka uppsagnarrétt atvinnurekenda. Þau hafa lögleitt skilyrði um það að gildar og málefnalegar ástæður verði að liggja til grundvallar ákvörðun um uppsögn. Dómstólar hafa einnig verið afar tregir til að dæma miskabætur. Atli Gíslason hrl., sem skipar 1. sæti framboðslista Vinstri grænna  í Suðurkjördæmi hefur samið slíkt frumvarp og lagt fram á Alþingi með þingmönnum VG til að koma í veg fyrir hömlulaust frelsi atvinnurekenda til uppsagna starfsmanna. Það hefur í tvígang verið endurflutt en hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn hafa ljáð máls jafn sjálfsögðum réttarbótum.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur yfir höfuð ekki verið hljómgrunnur fyrir því að rétta við hlut launafólks eða skapa þann lagalega grunn til að tryggja rétt þess.

Það er tími til kominn að skipta út mannskapnum í brúnni! Nú er lag.

 

Sigurlaug B. Gröndal , skipar 13. sæti VG í Suðurkjördæmi

Alma Lísa Jóhannsdóttir, skipar 2. sæti VG í Suðurkjördæmi


"Þjóðarskömm"

Búum við í því velferðarþjóðfélagi sem við teljum okkur gera? Nei, ég er hrædd um ekki.  Í Morgunblaðinu í gær laugardag er stór grein um heimilislausa einstaklinga. Þessir einstaklingar eiga hvergi höfði sínu að halla nema í næturathvörfum, en þau hýsa eigi að síður ekki nema brot af þeim sem á því þurfa að halda.  Þessir einstaklingar eru fársjúkir á sál og líkama og hrekjast um í þjóðfélaginu frá degi til dags til að komast í skjól.  Konukot hefur verið rekið sem tilraunaverkefni, að mig minnir í tvö ár. Fyrir liðlega ári síðan var prófað að hafa það opið allan daginn á köldustu vetrardögunum en þeim er og hefur verið lokað að morgni og opnað aftur að kvöldi. Því eru þeir einstaklingar sem á þurfa að halda að hrekjast í kuldanum dag frá degi til að leita skjóls. Kaffistofa Samhjálpar hefur verið eitt helsta skjólið á daginn, þar er hægt að fá heitt kaffi og heita súpu og hlýja sér en nú er það skjól á hrakhólum vegna húsnæðisskorts. Hvar er velferðin í dag? Það er svo einkennilegt með þessa þjóð að það er strax haft samband við yfirvöld ef finnast illa haldin hross í haga eða húsum. Það er sérstakur "forðagæslumaður" sem hefur eftirlit með að búfénaður sé vel haldinn  í fóðrum og skjóli! En hver er "forðagæslumaður" þessa fólks. Hvers vegna þarf þessi veiki hópur einstaklinga að hrekjast á milli, húsnæðislaust, án skjóls og matar nema að næturlagi helst og þá aðeins örlítið brot af þeim sem á þurfa að halda. Það er skeflilegt til þess að hugsa að konur í þessari stöðu þurfi að selja sig , líða barsmíðar og hvers kyns valdníðslu karlmanna til að eiga skjól eina og eina nótt! Getur þessi þjóð verið þekkt fyrir þetta? Það verður að koma upp fleiri athvörfum sem bæði eru opin að degi sem nóttu. Það verður að sjá til þess að Samhjálp fái húsnæði. Ég veit að borgin er að leita logandi ljósi að hentugu húsnæði, en eins og kom fram í viðtali við yfirmann Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar bakka leigusalar út þegar þeir heyra hvers konar starfsemi á að vera í húsnæðinu, en betur má ef duga skal.  Ég held að þetta þjóðfélag  verði að bretta upp ermarnar ef hún ætlar að standa undir því nafni að kallast "velferðarþjóðfélag". 

 


Suðurlandsvegur og Þrengslin - forgangsverkefni

Er ekki komið nóg af alvarlegum slysum á þessum vegum? Hvað þurfa mörg dauðaslys að verða til að eitthvað sé að gert? Álagið á alltof þrönga vegi með miklum þungaflutningum er orðið alltof mikið. Báðir þessir vegir eru stórhættulegir. Þrengslin hafa til að mynda engar vegaxlir. Ef bifreið bilar hefur ökumaður ekkert svigrúm til að rýma veginn. Vegurinn er þröngur og slitlagið orðið eins og stagbætt flík, að auki er nánast ekkert gsm samband í Þrengslunum ef slys verða.  Slitlagið er  stóhættulegt í bleytu  og krapa. Bílar fljóta upp úr hjólförunum.  Vegurinn er mjór og miklir þungaflutningar eiga sér stað á veginum. Suðurlandsvegur er barn síns tíma og þjónar ekki lengur þeim mikla umferðarþunga sem um hann fer.  Lagfæring á þessum vegum verður að setja í forgang. Þeir eru búnir að kosta alltof mörg mannslíf! 

 


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband