Færsluflokkur: Bloggar

Allir launþegar - gleðilega hátíð á baráttudegi verkalýðsins 1. maí!

Í dag er 1. maí, baráttudagur launþega. Slagorð þessa dags í ár er "Verjum kjörin". Af hverju? Á þessu ári, þann 11. júní næstkomandi eru nákvæmlega liðin 70 ár frá því að lög um stéttarfélög og vinnudeilur voru samþykkt á alþingi og tóku gildi.  Þessi lög eru ramminn utan um stéttarfélögin, verkföll og vinnudeilur, rétt launþega til að stofna stéttarfélög og vera í stéttarfélögum. Þau halda einnig utan um starf trúnaðarmanna á vinnustöðum. Það er búið að taka áratugi að öðlast þann rétt sem við höfum í dag. Fyrri kynslóðir börðust harðri baráttu til þess að öðlast þau. Sumir  af yngri kynslóðinni halda að þetta hafi alltaf verið til staðar.  Það er ekki ýkja langt síðan að laugardagur var vinnudagur eða að sumarleyfisdagar urðu 24 dagar. Það hefur margt gerst á þessum 70 árum, en við erum líka enn að berjast þessum 70 árum seinna.  Baráttan meðal annars felst í því að verja þau kjör sem við höfum. Með einstaklingssamningum við einkafyrirtæki er reynt að fá launþega til að semja sig undan einstökum ákvæðum kjarasamninga gegn aðein hærri greiðslum og má þar nefna orlof og veikindarétt.  Staða trúnaðarmanna ætti að vera mun sterkari á vetvangi en hún er eftir öll þessi ár. Enn eru fyrirtæki að gera starfsmönnum sínum erfitt með að kjósa sér trúnaðarmann og eru oft lífdagar þeirra ekki langir innan sumra fyrirtækja.  Trúnaðarmenn gegna mikilvægu hlutverki á hverjum vinnustað og fyrir sína samstarfsmenn. Þeir eru upplýsingaveita um réttindi og skyldur. Þeir koma oft í veg fyrir að ágreiningur verði að óleysanlegum deilum. Er það eitthvað til að forðast? Ég hef það oft á tilfinningunni að þau fyrirtæki sem hafa neikvætt viðhorf til starfs trúnaðarmanna hafi sitthvað óhreint í pokahorninu. 

"Verjum kjörin" er einmitt það sem við stöndum frammi fyrir á hverjum degi. Baráttunni er hvergi lokið.  Ungt fólk verður frekar fyrir barðinu á skertum kjörum, þar sem ákvæðum kjarasamninga er ekki fylgt eftir.  Ég hvet foreldra ungmenna að fylgjast með kjörum barna sinna og vera vakandi fyrir því að farið sé eftir þeim samningum sem í gildi eru. 

Brot á kjarasamningum er brot á lögum. Þeir byggja á landslögum og má þar nefna að ákvæði um orlof er bundið í lög, uppsagnarfrestur, greiðslur vegna veikinda og slysa, skylda atvinnurekenda að greiða í sjúkrasjóð stéttarfélaganna, réttindi fólks í hlutastörfum, bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar og fleira má telja.

Hvet alla til að skoða vef Félagsmálaráðuneytisins þar sem flest þau lög sem snúa að vinnurétti eru þar á einnig síðu.

http://www.felagsmalaraduneyti.is/malaflokkar/vinnumal/log/

Skoðið einnig vef Alþýðusambands Íslands  www.asi.is

Gleðilega hátíð og njótið dagsins! 

 

 


Gleðilegt sumar..............hve glöð er vor æska!

Gleðlegt sumar og takk fyrir veturinn, bloggvinir mínir sem og allir aðrir. Hve glöð er vor æska á svona dögum. Nú spretta krakkarnir fram með hjólin sín, boltana sína, hjólabrettin og öll þau leikföng sem tilheyra vori og sumri. Nú er eins og landinn rísi upp og lifni við eins og gamall geðstirður risi sem hefur lúrt í vetur, leiður á veðrinu og myrkrinu. Við erum skrítin þjóð og öfgar í veðri, birtu og umhverfi móta okkur. Við erum öfgakenndir íslendingar.  En nú rétta allir úr sér og teiga birtuna sem varir langt fram á kvöldin. Nú fer að koma sá tími í hönd að ég tími varla að sofa. Ég er ein af þessum vökustrumpum á sumrin sem helst vildi liggja úti í móa og hlusta á náttúruna næturlangt. Ég gerði reyndar mikið af því í útlegum hér áður fyrr. Nú dundar maður í garðinum sínum og situr á sumrin langt fram á kvöld úti við og nýtur birtunnar, þessarar mögnuðu sumarbirtu og kvak fuglanna.  Við vorum nokkrar kunningjakonur að ræða um leiki okkar sem börn í samanburði við börn í dag. Við vorum margir, krakkarnir í neðri hluta Hlíðanna sem nutu góðs af Engihlíðarróló sem var og hét. Þar var paradís okkar.  Þarna vorum við í stórum hópum krakkar á öllum aldri að leik. Einn leikur var mikið stundaður en þá sérstaklega ef gott og stillt veður var. Í horni rólósins var stór, steyptur sandakassi sem hafði breiðar, sléttar, steyptar brúnir, allan hringinn. Við sátum oft við þenna kant ofan í sandkassanum. Við notuðum þessar brúnir sem teikniborð. Við settum þunnt lag af þurrum sandi og notuðum greinabút til að skrifa með í sandinn. Þarna sátum við mörg, kvöld eftir kvöld og vorum í nafnagátu, með tilheyrandi gálgateikningu ef við svöruðum ekki rétt. Þarna var keppt stundum á milli stráka og stelpna. Einnig vorum við þegar við vorum örlítið stærri, í hnífaparís. Þá var flott að eiga vasahníf til að tálga spítur og vera í hnífaparís. Ég átti einn smáan vasahníf með hvítu skafti. Þetta gengi ekki  upp í dag, held ég. Þá væri talað um að æskan væri vopnuð. Við hugsuðum aldrei um þessa hnífa sem vopn, heldur verkfæri. Það var líka gott að nota hann við að skera bút úr epli. Svo var það rólukeppnin. Í öðru horni rólósins, þar sem spennistöðin var við, var hár rólustaur úr járni fyrir tvær rólur. Vegna mikillar hæðar stauranna voru keðjur rólanna mun lengri en á öðrum rólum, enda var slegist um að komast í þær. Þá var keppt í að ná sem lengstri sveiflu og ná að sparka með tánum í reyniviðargreinarnar í bakgarðinum í Mjóuhlið sem sneri að rólónum.  Á aðalsvæðinu voru tveir rólustaurar, ekki eins langir og hinir en þar var keppt í rólustökki. Þá var rólað eins og maður þorði og stokkið úr rólunni. Síðan var merkt við og sá sem lengst stökk vann!  Við áttum fæst okkar reiðhjól, við áttum ekki hjólaskauta, eða neitt það sem krakkar hafa í dag en það var brjálað að gera hjá okkur kvöld eftir kvöld í leikjum. Það sem líka var svo skemmtilegt, þarna voru allir aldurshópar að leika sér saman í hópum. Svo saxaðist á hópinn á kvöldin eftir aldrinum. Yngstu börnin voru kölluð inn fyrst og svo koll af kolli. Þegar elstu voru eftir var gjarnan setið og skrafað þangað til að röðin kom að þeim. Stíft var haldið í útivistartímann á þessum árum. Kom ekki að sök og ekki mikil mótmæli. Já, hve glöð er vor æska!

Eru ekki fleiri aðilar sem þarf að kæra?

Það er alveg merkilegt þetta með áfengisauglýsingarnar. Nú rigna yfir mann auglýsingar í sjónvarpi um Viking öl, Thule og fleiri,  sem svo í lok auglýsingar birtist með svo smáu letri "léttöl´" í horninun neðarlega á skjánum að varla nokkur maður tekur eftir því. Sama má segja um aðrar tegundir. Lengi vel var Hollenski bjórinn Grolsh auglýstur sem léttöl með sama hætti. Ég hef hvergi rekist á þessar "léttu" öltegundir sem eru "aðeins 0% til 2,0% alkóhól" neinsstaðar. Hafið þið rekist á þessar léttu öltegundir t.d. í matvöurbúðinni eða í ríkinu eða í sjoppunni? Þarna tel ég að verið sé að auglýsa áfengan bjór undir fölsku flaggi. Látið mig vita ef þið finnið þetta léttöl einhversstaðar!Wink
mbl.is Dæmdur í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorið er komið og grundirnar gróa.........

Það eru orð að sönnu. Þvílík umskipti. Ég er búin að vera í syngjandi sveiflu yfir góðviðrinu. Það er mikið búið að stússast á mínum bæ í dag. Bóndinn er búinn að vera í ham! Annar bíllin af tveimur var tekinn í gegn frá toppi og niður úr í gær. Sólpallurinn var hreinsaður í dag, Grillið komið úr garðskúrnum, rósirnar mínar, garðáhöldin, búið að þrífa rúðurnar á húsinu, henda fullt af drasli og fleira og fleira. Það var yndislegt að heyra í lóunni í morgunsárið.  Hundspottið var í essinu sínu í gryfjunni í dag og leitaði að músum og elti smáfuglana sem komnir eru þar. Hrafninn stríddi henni líka örlítið.  Svo var farið í að versla í matinn.  Það mátti sjá ljósgræna hnoðrana gægjast út úr brumhnöppunum á loðvíðinum í gryfjunni. Stórkostlegt. Það var bara um síðustu helgi sem var um 30cm jafnfallin snjór þar!!! Nú skal man sko grilla og alles!!!! Fyrsta grill vorsins. Jahúú!!!Grin .  Litlu afabörnin hans Jóns mágs míns í næsta húsin voru komin út með hjólin sín í morgun. Það var yndislegt að sjá þau bagsa við að komast af stað út í vorið, búið að leggja snjógallanum fram á haustið (vonandi!). Á svona dögum er ekki hægt að vera innanhúss. Vorið er komið og kallar á þig!!!!!! Eigið góðan dag!

Sumt ískrar í eyrum manns og................

Það má segja að það hafi ískrað í eyrunum á mér í morgun en það getur gerst þegar eitthvað hljómar svo út í hött og engan veginn í samræmi við aðstæður. Sem ég  var á leið til vinnu í morgun og klukkan rétt um 8:30 var ég að aka sem leið lá frá Þrengslum og var að fara undir brúna við mislæg gatnamót Þrengslavegar og Suðurlandsvegar hljómaði auglýsing í útvarpinu frá hjólbarðaverktstæði um að skipta ætti yfir í sumardekk fyrir 15. apríl og það byði þjónustu sína. Aðstæður voru hinsvegar þannig á þessum augnabliki að ég er að aka um í glerhálku og skafrenningi svo ekki sá út úr augum. Ég rétt gryllti í vegstikurnar til að vera örugglega á réttum vegarhelmingi. Það ískraði í eyrunum á mér. Þetta hljómaði alveg út í hött og ég gat ekki annað en brosað. Svona geta aðstæður verið svo gjörsamlegar andstæðar. Dekkjaskiptum frestað um óákveðinn tíma!!!! Farið varlega í umferðinni. Wink  

Frábærir dómar um

Verð að henda þessu inn. Á bloggsíðu Árna Matthíassonar, www.arnim.blog.is er frábær umsögn "Rokkað í algleymi" (2 færslan á blogginu) um hljómsveitina "We made God" sem ég ræddi um hérna á fyrra bloggi.  Hvet ykkur til að kíkja inn á síðuna hjá Árna. Læt fylgja með mynd af umslaginu!

Diskurinn


Kjör vaktavinnufólks þarf að bæta!!!

Nú eru að hefjast samningaviðræður milli BSRB og ríkisins. BSRB reyndi í vetur að fá ríkið að samningaborðinu vegna endurskoðunar á vaktavinnukerfi heilbrigðisstéttanna meðal annars. Því miður gekk ríkið ekki að því borði.  Vaktavinna er mjög erfið og rannsóknir sýna að þeir sem vinna  vaktavinnu hafa minni lífslíkur en þeir sem vinna reglubundna dagvinnu. Vaktavinna reynir mun meira á heilsufar, fyrir utan svo það að fólk er í vinnu á rúmhelgum dögum þegar aðrir eru í fríi. Það er ekki eftirsóknarvert að vinna í vaktavinnu í dag. Tími fólks er dýrmætur og kostar því meira. Greiðslur vegna vaktavinnu  hafa ekki fylgt þeirri þróun og er það kerfi sem fyrir er í dag afar flókið og erfitt í keyrslu svo ekki sé talað um greiðslur á vaktaálagi fyrir starfsmenn í vaktavinnu. Hér má gera betur og verður. Það er ekki bara lág laun sem fæla fólk frá vaktavinnu heldur vinnutíminn líka. Það kostar að fá fólk til að vinna á aðfangdag, jóladag, gamlársdag og fleiri slíka daga, en það kostar alltof lítið í dag. Baráttukveðjur til BSRB og Eflingar sem og til allra félaga innan ASÍ sem standa í sömu sporum.
mbl.is Viðræður SFR og ríkisins hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skín við sólu Skagafjörður".........og fleira.

Í vikunni sem leið var ég norður í Skagafirði, nánar tiltekið að Löngumýri við kennslu. Ég lagði af stað síðdegis á þriðjudeginum og var komin rúmlega hálfníu um kvöldið. Skagafjörðurinn og norðurlandið skartaði sínu fegursta. Sólskin var alla leiðina og fjöllin snævi þakin. Á miðvikudeginum var veðrið eins. Ótrúlega tært og fallegt. Það vottaði eigi að síður aðeins fyrir vori þann daginn. Garðurinn að Löngumýri er einstaklega fallegur og mætti ég þar lítilli grárri kanínu sem staðarhaldrari á. Það er ekki á hverjum degi sem maður mætir svona krúttlegu dýri í morgunsárið. Þarna átti ég tvo yndislega daga í fallegu veðri. Frostið lét samt ekki á sér standa og var ansi kalt þarna um morguninn eða -6 C°.  Vorið lætur enn standa á sér en maður finnur að það er ekki langt í það.  Þegar lagt var í hann heim aftur síðdegis á fimmtudeginum var komið vetrarveður í Vatnsskarðinu. Það snjóaði og á Holtavörðuheiði skafrenningu og fljúgandi hálka. Svo var bjart og fallegt þegar sunnar dró. Miklir öfgar í veðurfarinu þann daginn milli landshluta.

Dagurinn í gær var yndislegur. Sól í heiði og ég tímdi varla að vera inni þann daginn, enda létum við hjónin allt sem heitir húsverk eiga sig og fórum út í langa göngu með hundspottið, síðan í langan bíltúr. Reyndar hafði voffapoffið það af að velta sér upp úr haug af hrossaskít og kostaði það allsherjar bað á eftir. Lyktin var ógeðsleg!!! Vægt til orða tekið!. Í dag sungum við kórinn við fermingarguðsþjónustu í Hjallakirkju (Ölfusi). Það er alltaf stemmning að syngja í þessari litlu kirkju. Fallegur fermingardagurinn hennar Katrínar, en það var nafn stúlkunnar sem fermd var. Guð blessi daginn hennar.

Á laugardagskvöldi var hljómsveitin "We made God" með útgáfutónleika í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði. Minn yndislegi frændi Magnús Gröndal er gítarleikari og aðalsöngvari hljómsveitarinnar.  Því miður komst ég ekki en ég læt fylgja hér mynd af honum frænda mínum sem tekin var í ágúst í fyrra. Hvet alla til að kaupa diskinn þeirra!!! Þetta er vandað rokk, kíkið á demo á síðunni þeirra, sjá slóð hér:   www.myspace.com/wemadegod

Maggi frændi flottur Diskurinn heitir "As we sleep" og hefur fengið mjög góða dóma. Diskurinn fékk 4 stjörnur af 5 hjá Kerrang.  Gangi ykkur vel strákar! Kveðja frá "hele familien" í Þorlákshöfn. 


Hann á afmæli í dag...............

Gísli á Langjökli 2Jebb, hann á afmæli í dag sá yngsti, Gísli Bjarki, en hann er akkúrat 24 ára í dag!Wizard Þessi hjálparsveitafjallgeit er alveg einstakur (eins og öll mín börn). Hann er ljúfur, skemmtilegur, aktívur, fyndinn, ákveðinn með meiru.  Til hamingju með daginn, karlinn minn!Heart Ég læt fylgja með mynd af honum á Langjökli með Hjálparsveit skáta í Kópavogi núna um páskana.

Fór á frábæra tónleika í dag!

Ég fór á alveg hreint yndislega tónleika í dag. Það var Kammerkórinn Opus 12 sem var með tónleika í Seltjarnarneskirkju. Þessi hópur samanstendur af 3 sópransöngkonum, 3 altröddum, 3 tenórum og 3 bössum. Uppistaðan eru félagar úr Oddrellowreglunni nr. 11, Þorgeirs og eiginkonum nokkurra úr stúkunni. Stjórnandi er Signý Sæmundsdóttir. Allt var sungið acapella og var hljómurinn hreint frábær. Þarna voru sungin ættjarðarlög, sálmar, dægurlög, lög úr söngleikjum og íslenskar perlur. Mikil stemmning var á tónleikinum. Fyrir utan það að systir mín elskuleg Sigga, er ein af þessum frábærum sópransöngkonum þá er gamli skólastjórinn úr mínum gamla góða skóla, Hlíðaskóla, Ásgeir Guðmundsson einn af bössunum og honum við hlið gamall skólafélagi úr sama skóla. Það var gaman að hitta þá og sérstaklega Ásgeir. Hvet alla til að njóta góðrar tónlistar með þessum frábæra Kammerkór þegar næstu tónleikar verða hjá þeim: EKKI MISSA AF ÞEIM!!!Wink

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband