Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Tinna á hlaupum úti í tjörn

Ég varð að setja þessa skemmtilegu mynd af tíkinni okkar henni Tinnu sem tekin var í sumar, þar sem hún er að hlaupa og svamla í tjörn að sækja gamla gosflösku. Þetta er hennar uppáhaldsleikur. Er hún ekki glæsileg?   Hún er harður spretthlaupari  í þessum leikjum eins og sjá má. Tinna á hlaupum

Vetur konungur minnir á sig.

Fyrsti vetrardagur var á laugardaginn. Veturkonungur minnti á sig á föstudagsmorguninn með tilheyrandi frosti og hélu austan heiða. Margir settu vetrardekk undir á laugardaginn vegna hálku og snjóa. Það er óneitanlega bjartara og fallegra veður en hefur verið í rigningasuddanum undanfarið.  Birtan og snjórinn eykur á gleði fólks og er meira í takt við þær jólaútstillingar sem komnar eru í sumar verslanir, þó að mínu mati séu þær alltof snemma á ferðinni. Mér finnst passlegt að koma með þetta um miðjan nóvember, annað er alltof mikil sölumennska. Vona ég nú að snjórinn haldist og að við fáum fallega daga með froststillum og vetrarsól.  Lifið heil.

Við erum ekki eins opin......

Nei, við erum ekki eins opin og við teljum okkur vera. Innflytjendur sem búa hér með fjölskyldum sínum eru oft einagraðir félagslega utan vinnunnar. Það er oft á tíðum ágætis samband og kunningsskapur innan veggja vinnunnar en þegar fyrir utan er komið er ekki um sömu sögu að segja.  Við erum ekki að mynda tengsl við fólkið utan vinnunnar og einangrunin er oft á tíðum mjög erfið, sérstaklega fyrir konurnar.  Reyndar er þjóðfélagið í dag á svo miklum þönum að við megum ekki einu sinni vera að því að heimsækja okkar eigin skyldmenni. Ég held að við verðum að taka okkur tak og slökkva oftar á sjónvarpinu, tölvunni og skella sér í heimsókn eða bjóða í kaffi og tala við fólk. Við erum alltof dugleg að senda sms, tölvupóst og blogga! en stöndum okkur svo ekki í að tala við fólk augliti til auglitis. Þetta er slæm þróun. Tæknin er af hinu góða en við megum ekki gleyma okkur algerlega í heimi margmiðlunar.  Ef það er einhver sem við viljum ekki hafa samband við í bloggheimum eða á msn þá ýtir maður bara á "delete" einfalt, en hvað með fólkið sjálft sem að manni stendur? Kannski er einhver þarna úti sem vill gjarnan geta ýtt bara á "delete" takkann, það væri  einfaldast þegar um einhvern óþægilegan er að ræða innan fjölskyldunnar, en hann/hún  felur sig á bak við lyklaborðið og skjáinn. Við erum flott í samskiptum og segjum okkar skoðanir út og suður, BAK VIÐ LYKLABORÐIÐ, en hvað svo? Legg til að fólk taki sig til, slökkvi á tölvunni í kvöld, sjónvarpinu, baki pönnsur eða opni kexpakka og bjóði tengdó í kaffi eða systur eða bróður eða jafnvel skelli sér í betri bomsurnar og heimsækir gamla kunningja sem þeir hafa vanrækt lengi! Upp með samskiptin.  HEFUR ÞÚ BOÐIÐ NÁGRANNA ÞÍNUM Í KAFFI NÝLEGA? VEISTU HVERNIG HANN HEFUR ÞAÐ? Lifið heil.
mbl.is Innflytjendur einangraðri úti á landi samkvæmt nýrri könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt sama tóbakið!

Á leið minni frá vinnu í gær var ég að hlusta á Rás 2 eins og svo oft. Þar sem ég var nýbúin að kveikja á útvarpinu náði ég því miður ekki hver nafn viðmælanda var en verið var að ræða um bann við notkun á "snusi" eða þessu fínkornaða tóbaki sem Svíar "lifa á". Umræðan kom vegna fréttar á fréttavefnum  www.sudurland.is sem sagði frá stöðvun á sölu á snusi í söluturni á Selfossi. Í þessu viðtali var farið yfir ástæðu bannsins sem kemur frá Evrópusambandinu til að sporna við notkun ungs fólks áþessum óþverra. Kom fram spurning hjá þáttarstjórnanda hver væri munurinn á snusinu og gamla íslenska neftóbakinu og því væri annað bannað en ekki hitt? Skýringin var að markmiðið með banninu væri að koma í veg fyrir nýja tegund vöru til notkunar á markaði sem ekki hafði áður haft slíkt til sölu. Íslenska neftóbakið væri gömul hefð og því væri ekki um nýjung að ræða!!!! Ég gat ekki annað en sett upp spurningarmerki. Bíðum við.  Hér má selja og kaupa sígarettur, píputóbak, neftóbak (sem hefur verið notað til að setja í vörina meðal annar), vindla en ekki fínskorið tóbak eða snus því það væri svo hættulegt fyrir ungt fólk! Hver er munurinn! Tóbak er tóbak alveg í sama hvaða formi það er. Það er eins og að fara að banna sérstakar tegundir af víni eða bjór eða öðru áfengi frekar en aðrar af hættu við að ungt fólk ánetjaðist því frekar en öðru. Ef fólk ætlar yfir höfuð að nota tóbak þá gerir það það, burt séð frá því hvernig tóbak það er. Að mínu mati á annaðhvort að vera bannað að flytja inn eða nota hvers kyns tóbak, hvaða nafni sem það heitir eða að leyfa innflutning á öllu tóbaki. Furðuleg fyrirhyggja!  Lifið heil.

Aldrei of varlega farið í verndun náttúrunnar !

Við eigum afskaplega mikið af góðu og hreinu vatni. Því miður hefur það verið of oft verið gert lítið úr varnarorðum umhverfissinna varðandi umgengni við náttúruna og þar með vatnsverndarsvæði á landinu. Lítið hefur verið gert úr mengun eftir fyrirtæki og stofnanir sem hafa hætt störfum. Oft hefur verið rætt um þá mengun sem Varnarliðið hefur skilið eftir sig hér og þar. Á sínum tíma voru varnarorð umhverfissinna höfð að engu. Umhverfi Heiðmerkur, Hólmsheiðarinna, Bláfjallanna og hraunið þar umhvefis er svæði sem þarf að gæta vel að ásamt svo miklu, miklu fleiri svæðum víða um land. Vonandi eigum við aldrei eftir að lenda svona stöðu sem íbúar Óslóar eru í nú.  Slæm umgengni getur verið dauðans alvara. Lifið heil.


mbl.is Drykkjarvatnið í Ósló óhæft til neyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómar Ragnarsson og góðu ráðin hans í umferðinni......................

Hver man ekki eftir stuttu, hnitmiðuðu þáttunum hans Ómars Ragnarssonar, þar sem hann tók fyrir alls kyns öryggisatriði í umferðinni, alls konar ráðum til að spara eldsneyti, fara betur með bílana og þess háttar. Þessir þættir sitja í minningunni hjá mér og enn þann dag í dag  man ég eftir ráðum hans þegar ég ek í umferðinni. Dæmi um slíkt er að eitt sinn var hann  að kenna fólki sem væri að aka upp brattar brekkur á bílum sínum að skipta niður um gír áður en bíllinn fer að erfiða. Það sparar eldsneyti. Ómar minnti landann einnig á að þegar ökumaður er á ferð úti á landi á þetta 80-90 km hraða (gæti hafa verið minni þá) og viðkomandi ætlaði að beygja út af aðalvegi, þá þyrfti hann miklu fyrr að gefa stefnuljós þar sem hraðinn væri meiri og hemlunarvegalengd miklu meiri.  Að aka í hringtorgi og fleira kom þarna með. Það veitti ekki af Ómar minn að koma með svona syrpu aftur eða að endurtaka eldri þætti.  Slíkir þættir væru gott innskot milli dagskrárliða í sjónvarpi. Aldrei er góð vísa of oft kveðin ..........eða þannig. Takk fyrir þessa þætti Ómar minn, þó seint sé. Lifið heil. 

Biðin langa.......

Ég var ein af þeim mörgu sem lentu í langri bið vegna hálkuslysa við Litlu Kaffistofuna í morgun og var ég því alltof sein til vinnu. Þarna eru oft lúmskir hálkublettir og ekki gott að sjá hvort um bleytu er að ræða eða hálku. Það er aldrei of varlega farið. Þarna mætti setja veghitamæla í stað þess að hafa þá eingöngu á háheiðinni og í Þrengslum. Þarna eru líka miklir sviftivindar og hið versta veðravíti. Þarna eru veður oft vályndari en á upp á Hellisheiðinni sjálfri.  Ég mæli með hitamæli í bílinn sem mælir hitastig utandyra og ekki mjög langt frá götuhæð. Mælirinn í bílnum  hjá mér pípir í þrígang til að láta vita ef hitastig er komið í ísingarhættu. Það hefur reynst mér mjög vel, þar sem ekki sést alltaf hvort hálka er á vegum. Það sem gildir auðvitað no. 1, 2 og 3 er að aka varlega. Lifið heil.

Það munaði engu........!

Já, það munaði engu að það yrði stórslys þegar við hjónin vorum á leið okkar frá vinnu í dag.  Við vorum að aka leið okkur á átt að Sandskeiði í þessari ausandi rigningum og slæmu skyggni sem var í kvöld um sjö-leytið þegar bifreið er ekið á miklum hraða fram úr okkur og fram úr stórum flutningabíl sem ók á undan okkur.  Þess má geta að umferðarhraðinn var almennt um 96 km/klst. Bílnum er ekið beint á móti bifreið úr gagnstæðri átt sem varð að víkja í hvelli út af veginum, hinn rétt náði að smeygja sér fram fyrir flutningabílinn og bíllinn sem kom á eftir þeim sem vék út í kantinn gaf blikkandi ljósmerki á móti. Það munaði svo sáralitlu að þessi bíll færi beint framan á bílinn úr gagnstæðri átt.  Hvernig dettur mönnum  í hug að fara fram úr við þessi skilyrði sem þarna voru? Umferðarhraðinn var mjög góður og jafn hjá öllum ökumönnum, nema þessum! Ef menn eru að stunda slíkar kúnstir í umferðinni til að græða fáeinar mínútur eru þeir snarbrjálaðir!! Þeir hafa ekkert leyfi til að stofna sjálfum sér eða öðrum ökumönnum í lífshættu eins og þarna var gert.  Ég hvet eindregið alla ökumenn að láta vera að taka svona brjálæðislega sénsa og aka eins og menn. Lifið heil!

Hvað þýðir þetta?

Þessi ákvörðun eða samþykkt er góðra gjalda verð en hvað þýðir hún? Þarna virðist vera samþykkt sem gerir fyrrum opinberum starfsmönnum borgarinnar kleift að fara aftur til starfa. Reyndar var til samþykkt eins og kemur fram sem skrifuð var í  kjarasamninga m.a. hjá almennum starfsmönnum og er það enn, að starfsmaður sem hefur náð 70 ára aldri má halda áfram störfum í allt að 50% stöðu en þá á tímakaupi. Hvað með aðra en opinbera starfsmenn sem hyggjast ráða sig eftir 67 ára aldur fram að sjötugu? Fá þeir tilhliðrun  með tekjumörkin? Hvað þýðir það svo að lífeyrir skerðist ekki? Þýðir það að grunnlífeyririnn skerðist ekki sem er ekki nema hluti heildarupphæðar lífeyrisins. Tekjutryggingin skerðist strax nánast þegar ellilífeyrisþegi eignast einhverjar aukakrónur, meira að segja ef hann tekur lán til að standa undir framkvæmdum í stigahúsinu hjá sér, þá skerðir það lífeyri viðkomandi einstaklings, króna á móti krónu. Ellilífeyrir er ekki nema kr. 24.831,- fyrir einstakling. Ellilífeyrisgreiðslur eru nefninlega svo samsettar. Það er grunnrekjutrygging, sérstök tekjutrygging, heimilisuppbót og uppbót á lífeyri. Er kannski verið að ná í ódýrt vinnuafl? Það er ekki nema von að margir lífeyrisþegar eigi í erfiðleikum með að henda reiður á greiðslum til sín.
mbl.is Manneklu mætt með ráðningu eldri borgara í umönnunarstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættið að niðurlægja aldraða!

Er ekki komið nóg af þeirri niðurlægingu sem aldraðir verða fyrir á ári hverju vegna endurgreiðslu á ellilífeyrisgreiðslum frá TR? Því eiga þeir ekki rétt á því að greiðslur þeirra séu stabílar? Svona afgreiðsla skapar mikla óöryggiskennd hjá hinum aldraða og jafnvel setur þá í fjárhagslegan vanda. Ég á aldraða móður sem hefur lent í þessu margsinnis. Hún hefur fengið einhverjar krónur og þær eru svo hirtar af árið eftir.  Það er alltaf hálfgerð hefnd ef hinn aldraði fær einhverjar aukagreiðslur því þá eru þeir komnir yfir markið! Móðir mín hefur lent í því að þurfa að lifa af rúmum 60 þúsund krónum á mánuði. Með þeim á hún að greiða af íbúðinni, greiða lyfin sín, læknisþjónustu, heimaþjónustu, greiða öll matarinnkaup og það gefur auga leið að þú klárar ekki dæmið með þessum aurum. Hún er örugglega aðeins ein af mjög mörgum sem eru í sömu stöðu. Er ekki kominn tími til að endurskoða kerfið og hætta að niðulægja lífeyrisþega með þessum hætti? Það er nefninlega svo fáránlegt sem það hljómar þá er manneskjan nánast ófjárráða aftur þegar hún er komin á ellilífeyri!!!


mbl.is Árleg martröð aldraðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband