Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Ágæt lausn en þarf að gera víðar!

Þetta er ágæt lausn til að draga úr flöskuhálsum þegar umferð er hvað þyngst. Það eru fleiri hálsar sem er jafnslæmir ef ekki verri. Þar á meðal er það afreinin af Ártúnsbrekkunni þar sem hún kemur inn á Sæbraut er á sama stað aðrein inn í Dugguvoginn. Þessum gatnamótum ætti að loka en setja í stað sér afrein út úr Ártúnsbrekkunni bak við iðnaðarhverfið. Þessi stífla er ein sú versta í borginni. Á morgnana tefur hún ALLA umferð inn í borgina! Þriðji hálsinn er sú furðulega framkvæmd sem var, að ég tel eingöngu gert fyrir aðalstöðvar Glitnis við Kirkjusand, það var að rjúfa eyjuna þar og koma á gatnamótum milli Laugarnesvegar og Kringlumýrarbrautar sem að mínu mati var vitleysa að gera. Í stað þess að greiða úr umferð með því að fækka ljósum var þeim fjölgað! Ég tel það jafnmikið  forgangsverk  að loka við Dugguvoginn eins og við Bústaðarveginn.
mbl.is Loka vinstri beygju af Bústaðavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er eitthvað vit í þessu

Þetta er alveg hárrétt ákvörðun. Reyndar hafa mér fundist þessar takmarkanir alveg út í hött. Það vantar alltaf menntað fólk og þessi "nálaraugu" hef ég ekki getað skilið fyllilega þegar vantar alltaf fólk í þessar stöður. Var ekki alltaf markmiðið að mennta þessa þjóð enn frekar? Ég vona bara að þetta verði gert á fleiri sviðum Háskólanna.
mbl.is Aflétta fjöldatakmörkunum í iðjuþjálfun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgi byggingaverktaka hafa ekki átt sér nein takmörk.

Í sumar var ég í endurhæfingu á Reykjalundi og var oft á göngu þar og í tækjasal við æfingar, þar sem blöstu við mér hlíðarnar fyrir ofan Álafosskvosina. Þar blasti við mér forljótt nýtt fjölbýlishús (blokk) í þessum kalda kassalaga fúnkís-stíl með rauðum svölum. Ef eitthvað hefur öskrað á móti manni í þessu annars fallega landslagi þá var það þessi blokk. Því í ósköpunum er ekki hægt að byggja þannig að það falli inn í landslagið. Ég skil vel íbúða þessa svæðis að vilja standa vörð um þetta svæði og forða því frá skemmdum. Eitt annað svæði sem ég tel hafa verið eyðilagt með einmitt þessum kassahúsum, gráum og köldum er svæðið umhverfis Elliðaárvatn. Þetta fallega svæði umhverfis vatnið þar sem lágreist byggð með einbýlishúsum og hesthúsum hefði átt að fá að halda ákveðinni mynd sem þar var fyrir. Hús með 45° halla á þaki sem féll vel inn í það gróðurland sem fyrir var. Ég hef alltaf verið ósátt við hvernig sallað var þar niður eins mörgum íbúðum og hægt var. Græðgin réði þar ríkjum, svo mikið er víst.
mbl.is Vilja að hætt verði við Helgafellsveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það ekki þetta sem heilbrigðisráðherrann vill?

Það er bara ein ástæða fyrir því að auðmaður eins og Róbert Wessmann komi og skoði heilbrigðisstofnun sem stendur til að loka að hluta þ.e. skurðstofum vegna erfiðs reksturs. EINKAREKSTUR!! Þetta er það sem heilbrigðisráðherra hefur verið að vinna að og mælt með. Á nú að rétta auðmönnum líka heilbrigðiskerfið á silfurfati? Nú verður örugglega tækifærið notað þegar liggur fyrir að draga saman seglin hjá hinu opinbera (vegna óráðssæju "auðmanna") og þar með heilbrigðiskerfinu til að koma því í auknum mæli í  einkarekstur. Það er skítalykt af þessu.
mbl.is Róbert Wessmann í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir þetta.

Ekki veitir af að fá aðeins lækkun á einhverjum þeirra útgjalda sem heimilin eru að borga. Eldsneyti hefur hækkað óheyrilega síðustu 12 mánuði og ríflega það og hefur íþyngt minni buddu töluvert. Eldsneytiskostnaður er hár á mínu heimili þar sem ég sæki vinnu utan heimabyggðar. Það munar um hverja krónu sem það lækkar. Vonandi heldur það áfram að lækka.
mbl.is Eldsneytisverð lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tommað á móti vindi.

Ég var að koma frá Egilsstöðum í kvöld. Var að kenna þar síðustu tvo daga. Ég hef nú ekki lent í því fyrr að vera 1 og 1/2 tíma á leiðinni sem annars er 1 klst. flug. Mótvindur var gríðarlegur. Vélin andskotaðist við í flugtaki, sem betur fer ekki lengi. Ferðin gekk vel en við lentum á gömlu NA/SV brautinni sem er ekki notuð nema í einstaka tilfellum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég lendi á þeirri braut og er ég búin að þvælast um landið í flugi s.l. 12 mánuði og ríflega það.  Það var fallegt á Egilsstöðum eins og alltaf. Mikið stóð til þar fyrir utan námskeiðið en þarna voru nokkrir pólitíkusar að funda. Valgerður Sverrisdóttir, Kristján Möller, Kristján Þór, Þuríður Backman og fleiri. Einnig var VG með fund á Hótel Héraði með Steingrími J. Þar sem ég hef misst af svo mörgum fundum sá ég þarna gullið tækifæri að fara á fundinn. Þetta var fjölmennur fundur og  fróðlegt var að heyra í heimamönnum um hvernig ástandið í þjóðfélaginu snertir byggðarlagið. Áður en fundurinn hófst heimsótti ég mína eðalfrænku sem er hljóðmaður hjá RUV, Heiði Ósk. Hún var að klippa í óða önn frétt sem átti að sendast í hvelli suður og var síðan að undirbúa útsendingu á hluta Kastljóssins ásamt Hjalta en Steingrímur og Valgerður voru í þættinum. Merkilegt hvað hægt er að framkvæma í ekki stærra húsnæði og á mettíma og ég dáðist að henni frænku minni fyrir snilli hennar á græjunum. Hún er bara flottust! Ég verð að segja það. Góðar stundir.

Fáránlegur skattur.

Ég er ein af þeim sem hef ekið á nagladekkjum nánast allan minn ökuferil og hefur það bjargað mér margoft. Ég bjó í ein 20 ár í Seljahverfinu og þar sem og í efri byggðum er mjög oft ísing þó autt sé niður í bæ. Glæran sem þar oft myndast hefur gert mörgum sem ekki eru á nagladekkjum marga skráveifuna. Þarna eru brekkur og hver man ekki eftir vandræðunum oft í hálku á morgnana og á kvöldin á Seljabrautinni og Breiðholtsbrautinni! Fyrir 15 árum þegar þó flestir voru á nagladekkjum var ekki kvartað yfir svona mikilli svifryksmengun. Reyndar voru bílar færri þá en þá voru þungaflutningar á vörum og jarðefnum ekki eins mikill á götum borgarinnar sem og á þjóðvegunum. Atvinnubílstjóri sem ég heyrði viðtal við fyrir um 2 árum sagði af eigin reynslu að 30 tonna flutningabíll sem æki á malbiki sliti því á við einhverja hundruð eða þúsundir fólksbíla. Er ekki þarna verið að hengja bakara fyrir smið rétt einu sinni! Góðar stundir.
mbl.is Leggjast gegn nagladekkjaskatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bændamús" - hafið þið prófað hana?

Ég kýs að kalla þetta "bændamús", jah, hvað ætli það svo sem sé? Jú, flestum þykir mjög góð alvöru kartöflumús með slátri og fleiri góðum íslenskum mat. Svo er ómissandi að hafa rófustöppuna líka. Svo eru okkar góðu gulrætur alveg hreint dásamlegar nýsoðnar með matnum. Hvað skyldi þá "bændamús" vera á mínum bæ? Jú, afhýðið nokkrar kartöflur og skerið í tvennt, afhýðið 1 gulrófu eða svo og skerið í bita (álíka stóra og kartöflurnar eru) og svo 3-4 stórar gulrætur og bútið niður í þykkar sneiðar. Setjið vatn í pott og setjið örlítið salt í pottinn og látið suðuna koma upp. Setjið grænmetið í pottinn og sjóðið í ca. 20-25 mínútur eða þar til það er orðið vel mjúkt. Látið vatnið renna af og setjið í skál (gjarnan hrærivélaskál). Setjið örlítið salt, sykur (má vera líka gervisæta), dálitla klípu af létt og laggott (þeir sem það vilja geta notað smjör). Hrærið vel saman í hrærivél, bætið volgri mjólk út í og þeytið aðeins. Þetta er ótrúlega gott með slátri, saltkjöti, meira að segja soðinni ýsu, reyktum fiski og fleira og fleira. Prófið bara! Góðar stundir.

Vangaveltur um myntbreytingu.

Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér í kringum alla þá umræðu sem átt hefur sér stað um krónuna okkar sem talin er af mörgum, galónýtur gjaldmiðill svo ekki sé meira sagt. Háar raddir eru um að ganga í ESB og taka upp evruna. Sumir hafa jafnvel verið svo djarfir að tala um að taka upp dollarann! Guð forði okkur frá þeirri vitleysu. Erum við ekki nægileg amerísk fyrir? Það er ljóst að ekki verður evran hingað komin í stað krónunnar nema að ganga í ESB og því er ég alfarið á móti. Okkar smáa þjóð verður gleypt þar með öllu, þá á ég við orkulindum, nýtingu sjávar og miklu fleira sem ég tel að við töpum yfirráðum okkar yfir. Nú hafa Danir og Svíar verið að ýja að því að taka jafnvel upp evruna. Það er víst farið að halla eitthvað á efnahaginn á fleiri stöðum.  Hvað með norræna krónu? Væri það kostur að Noregur, Svíþjóð, Danmörk, Ísland og Færeyjar tækju upp sameiginlegan gjaldmiðil þ.e. NORRÆNA KRÓNU!  Margt vitlausara hefur verið gert í henni versu! Góðar stundir.

Stórkostlegur kosningasigur-upphaf aldar raunsæisins er komið!

Ég óska Bandaríkjamönnum til hamingju með nýja forsetann og reyndar öllum heiminum með þessi úrslit. Það er mín trú að þessi úrslit eigi eftir að marka spor í heimssöguna og boða miklar breytingar allsstaðar. Sérstaklega þó hjá Bandaríkjamönnum sjálfum.  Hún mamma segir oft svo merkilega og skemmtilega frá. Hún pælir mikið í pólitík, fylgist með erlendum fréttum um allan heim. Hún segir að öld raunsæisins sé að renna upp. Það hafa verið ísöld, bronsöld, steinöld, víkingaöld,  bylting kommúnisma, frjálshyggjubylting og fleira. Allt þetta hefur liðið undir lok. Öfgar eru aldrei af hinu góða. Nú erum við búin að skella á rassinn með frjálshyggjuna (sem fór hér út í hreina græðgi) og komin til raunveruleikans. Þjóðin er að vakna af draum sem átti að vera svo góður og hið eina sem var rétt og gott. Þessu má líkja við að þjóðin hafi verið slegin utan undir. Verst er að það eru svo margir sem áttu þennan kinnhest ekki skilið og skilja ekki hvers vegna þeir hafa fengin hann.  Efnahagur margra þjóða stefnir niður á við. Tími græðginnar er liðinn eða ég vona það. Nú tekur við tími raunsæis, jafnvægis, mannúðar sem gefur öllum pláss til að vera til og lifa mannsæmandi lífi. Ég er kannski svona hrikalega bjartsýn eða óraunsæ, en þetta er mín tilfinning og oft hefur hún mamma verið sannspá. Lifið heil.

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband