Færsluflokkur: Bloggar

Ómar Ragnarsson og góðu ráðin hans í umferðinni......................

Hver man ekki eftir stuttu, hnitmiðuðu þáttunum hans Ómars Ragnarssonar, þar sem hann tók fyrir alls kyns öryggisatriði í umferðinni, alls konar ráðum til að spara eldsneyti, fara betur með bílana og þess háttar. Þessir þættir sitja í minningunni hjá mér og enn þann dag í dag  man ég eftir ráðum hans þegar ég ek í umferðinni. Dæmi um slíkt er að eitt sinn var hann  að kenna fólki sem væri að aka upp brattar brekkur á bílum sínum að skipta niður um gír áður en bíllinn fer að erfiða. Það sparar eldsneyti. Ómar minnti landann einnig á að þegar ökumaður er á ferð úti á landi á þetta 80-90 km hraða (gæti hafa verið minni þá) og viðkomandi ætlaði að beygja út af aðalvegi, þá þyrfti hann miklu fyrr að gefa stefnuljós þar sem hraðinn væri meiri og hemlunarvegalengd miklu meiri.  Að aka í hringtorgi og fleira kom þarna með. Það veitti ekki af Ómar minn að koma með svona syrpu aftur eða að endurtaka eldri þætti.  Slíkir þættir væru gott innskot milli dagskrárliða í sjónvarpi. Aldrei er góð vísa of oft kveðin ..........eða þannig. Takk fyrir þessa þætti Ómar minn, þó seint sé. Lifið heil. 

Biðin langa.......

Ég var ein af þeim mörgu sem lentu í langri bið vegna hálkuslysa við Litlu Kaffistofuna í morgun og var ég því alltof sein til vinnu. Þarna eru oft lúmskir hálkublettir og ekki gott að sjá hvort um bleytu er að ræða eða hálku. Það er aldrei of varlega farið. Þarna mætti setja veghitamæla í stað þess að hafa þá eingöngu á háheiðinni og í Þrengslum. Þarna eru líka miklir sviftivindar og hið versta veðravíti. Þarna eru veður oft vályndari en á upp á Hellisheiðinni sjálfri.  Ég mæli með hitamæli í bílinn sem mælir hitastig utandyra og ekki mjög langt frá götuhæð. Mælirinn í bílnum  hjá mér pípir í þrígang til að láta vita ef hitastig er komið í ísingarhættu. Það hefur reynst mér mjög vel, þar sem ekki sést alltaf hvort hálka er á vegum. Það sem gildir auðvitað no. 1, 2 og 3 er að aka varlega. Lifið heil.

Það munaði engu........!

Já, það munaði engu að það yrði stórslys þegar við hjónin vorum á leið okkar frá vinnu í dag.  Við vorum að aka leið okkur á átt að Sandskeiði í þessari ausandi rigningum og slæmu skyggni sem var í kvöld um sjö-leytið þegar bifreið er ekið á miklum hraða fram úr okkur og fram úr stórum flutningabíl sem ók á undan okkur.  Þess má geta að umferðarhraðinn var almennt um 96 km/klst. Bílnum er ekið beint á móti bifreið úr gagnstæðri átt sem varð að víkja í hvelli út af veginum, hinn rétt náði að smeygja sér fram fyrir flutningabílinn og bíllinn sem kom á eftir þeim sem vék út í kantinn gaf blikkandi ljósmerki á móti. Það munaði svo sáralitlu að þessi bíll færi beint framan á bílinn úr gagnstæðri átt.  Hvernig dettur mönnum  í hug að fara fram úr við þessi skilyrði sem þarna voru? Umferðarhraðinn var mjög góður og jafn hjá öllum ökumönnum, nema þessum! Ef menn eru að stunda slíkar kúnstir í umferðinni til að græða fáeinar mínútur eru þeir snarbrjálaðir!! Þeir hafa ekkert leyfi til að stofna sjálfum sér eða öðrum ökumönnum í lífshættu eins og þarna var gert.  Ég hvet eindregið alla ökumenn að láta vera að taka svona brjálæðislega sénsa og aka eins og menn. Lifið heil!

Hvað þýðir þetta?

Þessi ákvörðun eða samþykkt er góðra gjalda verð en hvað þýðir hún? Þarna virðist vera samþykkt sem gerir fyrrum opinberum starfsmönnum borgarinnar kleift að fara aftur til starfa. Reyndar var til samþykkt eins og kemur fram sem skrifuð var í  kjarasamninga m.a. hjá almennum starfsmönnum og er það enn, að starfsmaður sem hefur náð 70 ára aldri má halda áfram störfum í allt að 50% stöðu en þá á tímakaupi. Hvað með aðra en opinbera starfsmenn sem hyggjast ráða sig eftir 67 ára aldur fram að sjötugu? Fá þeir tilhliðrun  með tekjumörkin? Hvað þýðir það svo að lífeyrir skerðist ekki? Þýðir það að grunnlífeyririnn skerðist ekki sem er ekki nema hluti heildarupphæðar lífeyrisins. Tekjutryggingin skerðist strax nánast þegar ellilífeyrisþegi eignast einhverjar aukakrónur, meira að segja ef hann tekur lán til að standa undir framkvæmdum í stigahúsinu hjá sér, þá skerðir það lífeyri viðkomandi einstaklings, króna á móti krónu. Ellilífeyrir er ekki nema kr. 24.831,- fyrir einstakling. Ellilífeyrisgreiðslur eru nefninlega svo samsettar. Það er grunnrekjutrygging, sérstök tekjutrygging, heimilisuppbót og uppbót á lífeyri. Er kannski verið að ná í ódýrt vinnuafl? Það er ekki nema von að margir lífeyrisþegar eigi í erfiðleikum með að henda reiður á greiðslum til sín.
mbl.is Manneklu mætt með ráðningu eldri borgara í umönnunarstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættið að niðurlægja aldraða!

Er ekki komið nóg af þeirri niðurlægingu sem aldraðir verða fyrir á ári hverju vegna endurgreiðslu á ellilífeyrisgreiðslum frá TR? Því eiga þeir ekki rétt á því að greiðslur þeirra séu stabílar? Svona afgreiðsla skapar mikla óöryggiskennd hjá hinum aldraða og jafnvel setur þá í fjárhagslegan vanda. Ég á aldraða móður sem hefur lent í þessu margsinnis. Hún hefur fengið einhverjar krónur og þær eru svo hirtar af árið eftir.  Það er alltaf hálfgerð hefnd ef hinn aldraði fær einhverjar aukagreiðslur því þá eru þeir komnir yfir markið! Móðir mín hefur lent í því að þurfa að lifa af rúmum 60 þúsund krónum á mánuði. Með þeim á hún að greiða af íbúðinni, greiða lyfin sín, læknisþjónustu, heimaþjónustu, greiða öll matarinnkaup og það gefur auga leið að þú klárar ekki dæmið með þessum aurum. Hún er örugglega aðeins ein af mjög mörgum sem eru í sömu stöðu. Er ekki kominn tími til að endurskoða kerfið og hætta að niðulægja lífeyrisþega með þessum hætti? Það er nefninlega svo fáránlegt sem það hljómar þá er manneskjan nánast ófjárráða aftur þegar hún er komin á ellilífeyri!!!


mbl.is Árleg martröð aldraðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er gullið okkar!

Til hamingju með áfangann! Þetta er gullið okkar, ein af okkar dýrmætustu auðlindum sem við eigum. Vatnið okkar góða þurfum við að gæta vel og forðast það að það nái að mengast á nokkurn hátt. Sögur herma að þegar sýnishorn var tekið úr þessum lindum, sem Jón Ólafsson  og fyrirtæki hans Icelandic Glacial eru að taka vatn úr og var sent út til skoðunar, var tilkynnt að ekki hefði átt að senda mehöndlað eða hreinsað vatn. Svo hreint reyndist vatnið vera úr lindunum. Ég segi eins og góður leikari sagði forðum "Ég sel það ekki dýrara en ég stal því". Þetta kemur ekki á óvart. Markaðssetning á íslensku vatni hefur verið erfið, en með breyttum tíma, áherslum á ómengað vatn, lífræna ræktun og meiri þekkingu hefur Jóni tekist þetta.
mbl.is Íslenska vatnið sigraði í alþjóðlegri samkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðum að standa okkur betur-nú er lag!

Ég er hrædd um að við verðum að gera betur í þessum efnum. Við erum ekki eins vistvæn og við viljum vera láta. Við erum enn mjög aftarlega á merinni. Það er til að mynda mjög fáir hér á landi sem jarðgera lífrænan úrgang heimilanna en nokkrir skólar og leikskólar hafa gert þetta um árabil af myndarbrag. Það þarf að gera átak í þessum málum sem og í flokkun á sorpi og endurvinnslu. Hverfisgámar þurfa að vera aðgengilegri og gefa fólki fleiri möguleika á að flokka í grenndargámum en þar hafa nánast einungi gámar fyrir pappír og fernur. Grænu tunnurnar eru skref í rétta átt, en það er fleira sem þarf að flokka. Ekkert sveitarfélag jarðgerir lífrænan úrgang frá heimilum og stofnunum svo ég viti til. Ég er að gera mér vonir um að Sveitarfélagið Ölfus verði fyrsta sveitarfélagið sem gerir það. Það væri einnig stórkostlegt að fá alla þá moltu sem myndi verða framleidd til uppgræðslu. Betra er ekki hægt að setja á sandana. Ég skora á sveitarfélagið að verða fyrsta sveitarfélagið sem jarðgerir allt frá heimilunum!


mbl.is Ekkert íslenskt sveitarfélag tilnefnt til umhverfisverðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við þessu mátti búast !

Við hverju er að búast þegar fjöldi erlendra ófaglærðra verkamanna starfa sem faglærðir smiðir og koma hingað til landsins á 3ja mánaða ferðamannaleyfi og vinna hér svart?  Áður en þriðji mánuðurinn er liðinn fer hópurinn út og annar kemur í staðinn.  Það hefur vitnast að þetta sé stundað og hausnum hefur verið stungið ofan í sandinn vegna ástandsins. Skortur á faglærðum iðnaðarmönnum hefur orsakað það að fjöldi ófaglærða starfa sem iðnlærðir. Eftirlit virðist heldur ekki vera í lagi víðast hvar, það sýna mál sem þessi. Fleiri slík mál eru að koma upp á yfirborðið. Svo virðist sem þenslan í byggingariðnaði hafi gert það að verkum að "menn loka öðru auganu" og leiða þetta hjá sér vegna ástandsins. Þetta er skelfilegt ástand og kemur slæmu orði á okkar fagmenntuðu iðnaðarmenn.  Þarf ekki að fara að grípa í taumana?
mbl.is Gallar í nýbyggingum alvarlegt og algengt vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúpsteikt slátur og sviðakjammar !

Það er sem ég sagði á eldra bloggi, við eigum að markaðssetja okkar þjóðlega mat og einnig okkar hreina hráefni. Nú hljóma ég eins og stækur framsóknarmaðurSick  eða þannig! Skotarnir djúpsteikja sitt "haggis" og selja á öllum skyndibitastöðum. Það slátur "haggis" sem þeir eru með er miklu kryddaðra en okkar slátur. Við þurfum endilega að nýta okkur þetta og koma á markað. Skyndibitamenningin hér er líka hrikalega amerísk. Í Svíþjóð er hægt að fá "svensk kötbollar" hvar sem er. Í Hollandi var á sínum tíma hægt að kaupa síldarrétti í skyndibitavögnum ásamt mestselda skyndibita Hollendinga "krókettum". Það mætti setja íslenskt grænmeti í þær og osta í þær og jafnvel okkar yndislega fisk. Ég held líka að þeir mörgu sem búa einir eða komast ekki í heitan mat í hádegi fyndist tilbreyting að geta fengið eitthvað þessu líkt á næsta skyndibitastað. Það er til fleira en hamborgarar, franskar og pizzur.  Upp með íslenskt hráefni og uppskriftir!!!!
mbl.is Aukin áhersla á markaðssetningu norrænna matvæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangslausar aðgerðir

Ég fæ ekki séð hvernig það myndi bæta ástandið að banna lausasölu á köldum bjór í Vínbúðinni í Austurstræti eins og fram kemur m.a. í viðtali við Vilhjálm á visi.is , hvað þá að loka henni. Agaleysi íslendinga og siðleysi þeirra ásamt  máttleysi yfirvalda að halda uppi þeim lögum og reglum sem í gildi eru, eru megin orsökin fyrir ástandinu að mínu mati. Það kemur svo víða fram hvað íslendingar eru duglegir að brjóta lög og reglur  og liggur við að maður kalli það þjóðaríþrótt landans. Á ferðum mínum í Englandi og Skotlandi eru skilti er kveða á um 500 punda sekt ( sem eru ríflega 68 þúsund ísl. krónur) ef einstaklingur er staðinn að því að drekka áfengi á almannafæri. Ég sá hvergi ofurölvi fólk með bjórflöskur í hendi, stútandi þeim hvar sem tækifæri fékkst. Ekki var heldur verið að abbast uppá fólk vinna vinnuna sína við þjónustu og afgreiðslu á veitingahúsum eða börum. Ég hef einnig verið á Ólafsvöku í Þórshöfn í Færeyjum og ekki sá ég þá ruddamennsku þar sem viðgengst hér.  Ég held að eitthvað þurfi að gera í agamálum hér, bæta siðferðisvitund íslendinga og sjá til þess að viðurlög séu við broti á lögum og reglum. Hið opinbera verður að standa sig betur í þeim efnum. Þetta á ekki bara við um þetta tiltekna tilfelli heldur svo mörg önnur í okkar samfélagi.
mbl.is Vill vínbúðina burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband