Færsluflokkur: Bloggar

Nú árið er liðið í .....hugleiðing

Kæru bloggvinir, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á árinu sem leið. Síðasta ár er það ár sem einkennst hefur af miklum sviptingum miklum toppum og hraðri niðursiglingu. Ég horfði á fréttaannála sjónvarpsins í gær, nýársdag og var einkennilegt að horfa á hvern stjórnmálamanninn af öðrum segja okkur hinum að allt væri í himnalagi, hér væru erlendir aðilar að vega að íslenska hagkerfinu og bókstaflega ljúga upp á það meðan hagfræðingar og aðrir sem hafa meira vit á peningamálum vöruðu við þeirri þróun sem átti sér stað. Var ríkisstjórnin í afneitun eða eru það tómir vitleysingar sem stýra þessu skeri? Ég bara spyr. Hvenær á að fara taka mark á þeim sem meira vita hafa á hlutunum? Hér telja sig allir vita allt miklu betur en "fúll á móti".  Við hunsum viðvaranir annarra og reynslu annarra. Þvílíkur hroki. Erum við alltaf svona miklu betri, klárari en allir aðrir? Það mætti halda það. Það er búið að sjóða á hinum almenna borgara vegna þeirrar stöðu sem komin er.  Það hefur ekki mælst vel fyrir sú mótmælaalda sem hefur verið undanfarna vikur og mánuði. Ég horfði á Kryddsíldina meðan á útsendingu stóð.  Hávær mótmælin skáru sig í gegnum talað mál í þættinum og síðan rofnaði útsendingin. Reynt var aftur að hefja útsendingu en það stóð í stuttan tíma. Það kom fram hjá Ingibjörgu Sólrúnu enn og aftur að hún efaðist að þessi hópur sýndi vilja þjóðarinnar.  Sama kom fram á mótmælafundi í Háskólabíói hér fyrr.  Við hjónin veltum því þá fyrir okkur hvernig skoðanakannanir sem taka yfir kannski 600-1000 manns geta verið þá marktækari en þetta? Hafa þær verið teknar hátíðlega en þegar enn fleiri sækja svona mótmælafund þá þýðir það eitthvað annað. Ég skil ekki svona fullyrðingar. Við erum ekki sú þjóð sem vön er að standa fyrir mótmælum og höfum frekar látið allt mögulegt yfir okkur ganga og bölvað í hljóði. Það er bara ný kynslóð að taka við sem lætur ekki vaða yfir sig og sýna og hrífur hina með sér upp úr doðanum. Erum við ekki eitt elsta lýðræðisríki í heiminum? Hvar er lýðræðið núna? Ég hef lesið í blöðum um handtöku og dóma á fólks sem hefur stolið kjötlæri út úr búð, af því það átti ekki fyrir því og það fékk dóma upp á 2-3 mánuði og fleiri dæmi eru um slíka dóma í okkar réttarkerfi. Nú er búið að stela af okkur milljörðum, skuldsetja okkur almenninginn áratugi fram í tímann vegna óráðsnýju annarra.  Hvernig dóma fá þeir? ENGA! Enn sem komið er hefur enginn gengist í ábyrgð fyrir þessar gjörðir og því síður verið dæmdir.  Fylleríinu er lokið. Partýið er búið  og tiltektin er lögð á hendur almennings.  Þetta gat ekki gengið. Hvernig getur ríflega 300.000 manna þjóðfélag haldið úti rekstri á verslun og þjónustu sem þjónað gæti milljónum manna án þess að eitthvað gæfi sig eða væri ekki að ganga. Hvaða fyrirtæki áttu að flytja í öll þessi atvinnuhúsnæði sem byggð voru? Hver átti að búa í öllum þessum íbúðum sem var verið að byggja? Það sá hver heilvita maður að þetta var ekki reikningsdæmi sem gekk upp. Samt var almenningi talið trú um að allt væri í himnalagi, þetta væri ímyndun og hreinlega gefið í skyn að við hefðum ekkert vit á þessu.  Ungu fólki var boðið lán til hægri og vinstri. Keyptu þetta eða hitt og taktu lán og ekkert mál, því nú meikarðu það eins og allir hinir!!! Hvað voru mörg ungmenni sem féllu í þessa gildru? Þau voru ansi mörg og harðfullorðið fólk líka.  Fjármálaráðgjafar voru duglegir að ráðleggja fólki hvað það ætti að gera við peningana sína og margur situr nú með pyngjuna tóma eftir slíkar ráðleggingar.  Hvar eru peningarnir? Fjölmargir vinir foreldra minna áttu ævisparnað í bönkum sem þeir hafa nú misst og sitja uppi með tóma reikninga. Hver bætir þeim tjónið? ENGINN!  Svo eru ráðamenn hissa á því að fólk sé reitt og þetta sé ekki rödd þjóðarinnar sem heyrist berja hús utan og mótmæla. Þeir eldri hafa ekki kjark eða krafta til að framkvæma en heyrt hef ég raddir þeirra og þeir eru stoltir af því að unga fólkið lætur í sér heyra. Sumir segja jú, að þeir hafi nú aðeins farið þarna yfir strikið en að raddir þeirra skuli heyrast er það sem skiptir mestu máli. Enn er sama afneitunin í gangi. Það hefur ekkert breyst og enn eigum við að taka við því.  Gerum við það? Ég á systir sem búið hefur í Bandaríkjunum í 30 ár og er hún iðulega spurð að því hvort ekki sé búið að handtaka þennan eða hinn og hvort þeir sem stóðu að þessu væru ekki búnir að fá dóm? Nei. Hér eru allir þeir sömu við stjórnvölinn og verða það áfram. Hvergi í heiminum myndi slíkt viðgangast.  Búið væri að víkja mönnum úr embættum eða þeir sagt af sér. EN EKKI HÉR Á LANDI!  Í eldri bloggfærslu sagði ég frá orðum móður minnar um að nú væri öld raunsæisins runnin upp.  Sósíalistinn beið skipbrot, kenningin um algera frjálshyggju beið skipbrot  og hvað gerist nú?  Fólk talar um að nú verði önnur gildi uppi sem koma til með að verða hin sönnu verð mæti. Fólkið sjálft. Manneskjan, fjölskyldan og heimilið.  Náttúran og afturhvarf til grasrótarinnar.  Ég tel það vera rétt. Hópar fólks hafa verið að reyna að ríghalda í þetta, koma á framfæri í gegnum árin og reynt að spyrna við fótum. Þetta fólk var talið gamaldags, afturhaldssinnar, grasaguddur og ekki í takt við nýja tíma.  Hvernig getur manneskjan þrifist þegar hún er komin svo langt frá uppruna sínum og eðli? Hún bíður skipbrot. Verðmætamatið hefur verið svo skakkt.  Samkeppnin um flottheitin og ytri gæði hefur verið ráðandi. Flottræfilshátturinn hefur verið hreint yfirgengilegur.  Ég skrapp fyrir þó nokkru síðan niður bæ með vinum og stóðum við fyrir utan veitingahús niður í miðbæ. Haldið þið að það hafi ekki verið um tvær raðir að ræða! Önnur  var fyrir pöpulinn og hinn VIP röð! Ha!  Í borg sem telur ca. 160 þúsund manns, í landi sem telur ríflega 300 þúsund manns!  Þetta fannst mér vera lífsgæðakapphlaupið í hnotskurn og hallærisleg tilraun til að raða fólki í flokka eftir efnum og ástæðum. Ég hef upplifað það eins og verið sé að lyfta upp ákveðnum hópi fólks í svona stílfærðan Hollywood klassa. Getur ekki verið hallærislegra. Rót þessa alls er hin mikla minnimáttarkennd sem einkennir þjóðina. Við ánetjumst öllu og setjum á stall það sem útlenskt er og hefjum það upp til metorða og höfum gert þetta lengi. Nú er lag að breyta því. Við eigum að einblína á okkar sérstöðu, hreina náttúru, hreinar afurðir og hefja aftur til vegs og virðingar íslenskan iðnað. Hvenær ætlum við að læra að meta það sem við höfum hér? Það kemur vonandi á nýju ári með nýjum tímum og breyttri hugsun. Megi nýja árið færa okkur öllum gæfu, gleði og gott gengi í hverju sem við tökum okkur fyrir hendur. Lifið heil.

Stórkostlegur efniviður!

Þessi drengur er alveg stórkostlegur! Hann á eftir að ná langt. Það eru ekki margir hér á landi sem geta leikið sér að munnhörpunni af þvílíkri snilld eins og þessi ungi piltur.  Það þarf að styðja við bakið á ungu og efnilegu fólki og ég vona að hann sé með gott stuðningslið á bak við sig. Gangi þér vel, Þorleifur og haltu áfram að auka þekkingu þína og færni. Þú átt eftir að ná langt!
mbl.is Sextán ára blúsari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á eftir að versna

Nú eru ríflega 8.000 manns án atvinnu í dag og erum við að sigla inn í mesta atvinnuleysi sem verið hefur síðustu áratugi. Þetta á hins vegar eftir að versna. Í janúar og febrúar munu fjölmargar verslanir loka sem hafa verið keyrðar áfram til að ná jólasölunni. Á sama tíma eru fjöldamargir að ljúka sínum uppsagnarfresti vegna uppsagna sem tóku gildi fyrir áramótin. Á árunum 1993 til 1998 starfaði ég hjá Starfsmannafélaginu Sókn og meðal annars var ég í Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir hönd félagsins og síðar hjá Dagsbrún/Framsókn. Á þessum árum, sérstaklega 1993-1996 var mikið atvinnuleysi sem fór yfir 4% og við upplifðum þá langtímaatvinnuleysi sem hafði ekki þekkst síðan á kreppuárunum hér áður fyrr. Þjóðfélagið var ekki viðbúið þessu og miklir fordómar voru í garð þeirra sem ekki höfðu vinnu. Einnig þeir sem misstu vinnu sína, lífsviðurværi sitt höfðu einnig fordóma gagnvart atvinnuleysisbótum. Margir lokuðu sig inni og vildu ekki skrá sig atvinnulausa. Fullorðnir karlmenn sem þekktu ekki annað en að skaffa sinni fjölskyldu vel og af kostgæfni áttu einna erfiðast. Oft var sagt af öðrum að þessi eða hinn væri að misnota bæturnar og þessi eða hinn væri bara að leika sér að því að vera atvinnulaus. Við sem störfuðu við afgreiðslu bóta vissum betur. Það vona ég að hugað verði vel að andlegri heilsu fólks sem misst hefur vinnuna og að ekki heyrist raddir fordóma gagnvart fólki í þessari stöðu. Í  dag eru tímarnir miklu verri og eiga eftir að hafa meiri langtímaáhrif. Sýnið aðgát í nærveru sálar og styðjið hvert annað.
mbl.is Yfir 8 þúsund á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggleti á aðventu og kuldakast

Já, mikið skelfingar bloggleti er þetta á bænum! Ég hef ekki nennt þessu með nokkru móti síðustu daga. Ég hef þó rennt yfir færslur hjá bloggvinum mínum og sett inn komment hér og þar. Ég held að ég sé bara orðin svo leið á fréttaflutningi undanfarið og krepputalið er alveg niðurdrepandi í meira lagi svona á aðventunni. Við hjónin brugðum okkur í leikhús á laugardagskvöldið að undangengum kvöldverði á ágætu veitingahúsi í bænum. Við fórum að sjá Fólkið í blokkinni. Alveg snilldaruppfærsla finnst mér. Það er magnað að sitja nánast í miðri leikmynd og vera hluti af henni. Ég mæli eindregið með því að fólk skelli sér og hlægi svolítið og hafi gaman af. Í gær var svo yndisleg aðventustund í kirkjunni hjá okkur. Okkar kór, kirkjukórinn söng aðventu og jólalög ásamt kór eldri borgara "Tónar og trix", kór eldri barna í grunnskólanum og lúðrasveit Þorlákshafnar. Kirkjan var smekkfull og kakó og smákökur í lokin.  Kuldinn var þvílíkur úti fyrir að ég hélt að mér myndi aldrei hitna þegar ég kom út í bíl. Í bílnum var -10°c frost! Héla hafði myndast bara á meðan á æfingu og athöfn stóð. En veðrið var undurfallegt og stillt, blankalogn. Kuldinn og hálkan í morgun á leið til vinnu  var líka mikil. Vegurinn frá Þorlákshöfn og Þrengslin út á Suðurlandsveg var eitt gler! Frekar hvasst var og það var eins gott að aka varlega. Vonandi slær eitthvað á þennan kulda á næstunni. Ég reikna ekki með að blogga einhver ósköp á næstunni frekar en síðustu daga. Nú er aðventan, jólaljósin eiga eftir að koma upp og fleira sem bíður. Ef róleg stund verður hendi ég kannski inn einni og einni færslu. Góðar stundir.

Ágæt lausn en þarf að gera víðar!

Þetta er ágæt lausn til að draga úr flöskuhálsum þegar umferð er hvað þyngst. Það eru fleiri hálsar sem er jafnslæmir ef ekki verri. Þar á meðal er það afreinin af Ártúnsbrekkunni þar sem hún kemur inn á Sæbraut er á sama stað aðrein inn í Dugguvoginn. Þessum gatnamótum ætti að loka en setja í stað sér afrein út úr Ártúnsbrekkunni bak við iðnaðarhverfið. Þessi stífla er ein sú versta í borginni. Á morgnana tefur hún ALLA umferð inn í borgina! Þriðji hálsinn er sú furðulega framkvæmd sem var, að ég tel eingöngu gert fyrir aðalstöðvar Glitnis við Kirkjusand, það var að rjúfa eyjuna þar og koma á gatnamótum milli Laugarnesvegar og Kringlumýrarbrautar sem að mínu mati var vitleysa að gera. Í stað þess að greiða úr umferð með því að fækka ljósum var þeim fjölgað! Ég tel það jafnmikið  forgangsverk  að loka við Dugguvoginn eins og við Bústaðarveginn.
mbl.is Loka vinstri beygju af Bústaðavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er eitthvað vit í þessu

Þetta er alveg hárrétt ákvörðun. Reyndar hafa mér fundist þessar takmarkanir alveg út í hött. Það vantar alltaf menntað fólk og þessi "nálaraugu" hef ég ekki getað skilið fyllilega þegar vantar alltaf fólk í þessar stöður. Var ekki alltaf markmiðið að mennta þessa þjóð enn frekar? Ég vona bara að þetta verði gert á fleiri sviðum Háskólanna.
mbl.is Aflétta fjöldatakmörkunum í iðjuþjálfun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgi byggingaverktaka hafa ekki átt sér nein takmörk.

Í sumar var ég í endurhæfingu á Reykjalundi og var oft á göngu þar og í tækjasal við æfingar, þar sem blöstu við mér hlíðarnar fyrir ofan Álafosskvosina. Þar blasti við mér forljótt nýtt fjölbýlishús (blokk) í þessum kalda kassalaga fúnkís-stíl með rauðum svölum. Ef eitthvað hefur öskrað á móti manni í þessu annars fallega landslagi þá var það þessi blokk. Því í ósköpunum er ekki hægt að byggja þannig að það falli inn í landslagið. Ég skil vel íbúða þessa svæðis að vilja standa vörð um þetta svæði og forða því frá skemmdum. Eitt annað svæði sem ég tel hafa verið eyðilagt með einmitt þessum kassahúsum, gráum og köldum er svæðið umhverfis Elliðaárvatn. Þetta fallega svæði umhverfis vatnið þar sem lágreist byggð með einbýlishúsum og hesthúsum hefði átt að fá að halda ákveðinni mynd sem þar var fyrir. Hús með 45° halla á þaki sem féll vel inn í það gróðurland sem fyrir var. Ég hef alltaf verið ósátt við hvernig sallað var þar niður eins mörgum íbúðum og hægt var. Græðgin réði þar ríkjum, svo mikið er víst.
mbl.is Vilja að hætt verði við Helgafellsveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það ekki þetta sem heilbrigðisráðherrann vill?

Það er bara ein ástæða fyrir því að auðmaður eins og Róbert Wessmann komi og skoði heilbrigðisstofnun sem stendur til að loka að hluta þ.e. skurðstofum vegna erfiðs reksturs. EINKAREKSTUR!! Þetta er það sem heilbrigðisráðherra hefur verið að vinna að og mælt með. Á nú að rétta auðmönnum líka heilbrigðiskerfið á silfurfati? Nú verður örugglega tækifærið notað þegar liggur fyrir að draga saman seglin hjá hinu opinbera (vegna óráðssæju "auðmanna") og þar með heilbrigðiskerfinu til að koma því í auknum mæli í  einkarekstur. Það er skítalykt af þessu.
mbl.is Róbert Wessmann í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir þetta.

Ekki veitir af að fá aðeins lækkun á einhverjum þeirra útgjalda sem heimilin eru að borga. Eldsneyti hefur hækkað óheyrilega síðustu 12 mánuði og ríflega það og hefur íþyngt minni buddu töluvert. Eldsneytiskostnaður er hár á mínu heimili þar sem ég sæki vinnu utan heimabyggðar. Það munar um hverja krónu sem það lækkar. Vonandi heldur það áfram að lækka.
mbl.is Eldsneytisverð lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tommað á móti vindi.

Ég var að koma frá Egilsstöðum í kvöld. Var að kenna þar síðustu tvo daga. Ég hef nú ekki lent í því fyrr að vera 1 og 1/2 tíma á leiðinni sem annars er 1 klst. flug. Mótvindur var gríðarlegur. Vélin andskotaðist við í flugtaki, sem betur fer ekki lengi. Ferðin gekk vel en við lentum á gömlu NA/SV brautinni sem er ekki notuð nema í einstaka tilfellum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég lendi á þeirri braut og er ég búin að þvælast um landið í flugi s.l. 12 mánuði og ríflega það.  Það var fallegt á Egilsstöðum eins og alltaf. Mikið stóð til þar fyrir utan námskeiðið en þarna voru nokkrir pólitíkusar að funda. Valgerður Sverrisdóttir, Kristján Möller, Kristján Þór, Þuríður Backman og fleiri. Einnig var VG með fund á Hótel Héraði með Steingrími J. Þar sem ég hef misst af svo mörgum fundum sá ég þarna gullið tækifæri að fara á fundinn. Þetta var fjölmennur fundur og  fróðlegt var að heyra í heimamönnum um hvernig ástandið í þjóðfélaginu snertir byggðarlagið. Áður en fundurinn hófst heimsótti ég mína eðalfrænku sem er hljóðmaður hjá RUV, Heiði Ósk. Hún var að klippa í óða önn frétt sem átti að sendast í hvelli suður og var síðan að undirbúa útsendingu á hluta Kastljóssins ásamt Hjalta en Steingrímur og Valgerður voru í þættinum. Merkilegt hvað hægt er að framkvæma í ekki stærra húsnæði og á mettíma og ég dáðist að henni frænku minni fyrir snilli hennar á græjunum. Hún er bara flottust! Ég verð að segja það. Góðar stundir.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurlaug B. Gröndal
Sigurlaug B. Gröndal

Hef einlægan áhuga á öllu sem snertir manneskjuna,lífið og tilveruna. Ég er verkefnastjóri hjá Mími-símenntun ehf. Er hamingjusamlega gift Rafni Gíslasyni, húsasmiði. Við eigum 4 börn og 7 barnabörn og einn hund. 

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...palli
  • ...jol2008_030
  • ...jol2008_016
  • ...jol2008_012
  • Sumar2008 068

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband